Fréttir úr Sveitarfélaginu Árborg  

Það er skammt stórra högga á milli í íslensku veðurfari þessa dagana. Litaviðvaranir koma í röðum með rigningu og rok sem við íbúar í Sveitarfélaginu Árborg finnum fyrir líkt og aðrir. Jákvæðu hliðarnar gætu verið að þetta sé mun hagkvæmari leið til að losna við snjóinn en að moka honum í burtu en við stjórnum bara ekki tímasetningunni.

Snjómoksturinn alltaf óvissa
Það hefur sannarlega reynt á vetrarþjónustuna í Árborg frá því í desember. Reynt hefur verið eftir bestu getu að standa vel að snjómokstri og hafa starfsmenn fengið fjölda ábendinga um hvernig bæta megi þjónustuna enn frekar. Það er ekkert leyndarmál að í slíkri þjónustu felst ófyrirséður kostnaður enda erfitt að stjórna veðrinu sem nær oft að koma okkur á óvart. Til upplýsingar er kostnaður Sveitarfélagsins Árborgar við snjómoksturinn það sem af er vetri
um 90 milljónir króna.

Miðbær Selfoss gæti tekið frekari breytingum
Bæjarstjórn hefur samþykkt að auglýsa breytingartillögu að deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss. Með því gefst íbúum og öðrum áhugasömum tækifæri til að koma ábendingum og athugasemdum á framfæri og þannig haft áhrif á skipulagið áður en það fer til endanlegrar afgreiðslu. Bæjarstjórn samþykkti jafnframt að breytingartillagan færi í ráðgefandi íbúakönnun líkt og eldra skipulagið enda eðlilegt að sami háttur sé á gagnvart mögulegum breytingum. Slík könnun gæti farið fram rafrænt í lok mars. Vil ég hvetja alla áhugasama til að kynna sér tillöguna þegar hún verður auglýst. Þetta er spennandi verkefni sem án efa á eftir að vekja mikla athygli líkt og miðbær Selfoss hefur gert til þessa.

Launalækkun kjörinna fulltrúa
Það hefur áður komið fram í pistlum mínum að rekstrarstaða sveitarfélagsins er erfið. Nú stendur yfir endurskipulagning á öllum rekstri sveitarfélagsins með það að markmiði að draga úr hallarekstri en um leið viðhalda þjónustustigi eins og hægt er. Líkt og ýmsir íbúar hafa því miður nú þegar orðið varir við er óhjákvæmilegt í viðlíka aðgerðum að draga úr þjónustu einstaka stofnana. Það er von mín að slíkar aðgerðir séu að mestu tímabundnar en um leið geta aðstæðurnar gefið tækifæri til nýrra leiða og hugsunar.

Sem hluta af aðgerðum til hagræðingar hefur bæjarstjórn ákveðið að fella niður áætlaðar launahækkanir kjörinna fulltrúa og nefndarfólks árið 2023 ásamt því að lækka núverandi launataxta um 5 prósent. Þær aðgerðir skila um 21,2 milljónum í sparnað sem er gott skref í rétta átt. Rekstur bæjarsjóðs snertir okkur sannarlega öll með einhverjum hætti og mikilvægt er að íbúar séu upplýstir um stöðu mála.

Það má svo auðvitað ekki gleyma öllu því jákvæða sem er að gerast í samfélaginu okkar. Má þar nefna að menningin blómstrar í mörgum hornum, íþróttafólkinu okkar gengur vel og ný fyrirtæki hafa hafið starfsemi á sl. mánuðum sem eykur bæði þjónustustig og fjölgar störfum á svæðinu. Við búum í kraftmiklu samfélagi og horfum björtum augum fram á veginn.

Bragi Bjarnason
formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg

Fyrri greinMatarboð sem vatt upp á sig
Næsta greinHellisheiðin og Þrengslin lokuð