Frábær leikskóli: Hundrað prósent almenn ánægja foreldra

Á Laugalandi í Holtum er rekinn einnar deildar leikskóli með um 30 börnum.

Þar hefur Sigrún Björk Benediktsdóttir leikskólastjóri ásamt starfsfólki sínu byggt upp metnaðarfulla starfsemi þar sem áhersla er lögð á trausta og góða umönnun, upplýsingatækni, útikennslu og fjölbreyttar vinnustundir sem stjórnast af áhuga barnanna, leik og hæfni hverju sinni. Einkunnarorð skólans eru vinátta, viska og virðing og kristallast þessi gildi í öllu starfi skólans. Leikskólinn fékk nýverið ART vottun og var þá fyrstur leikskóla á Íslandi til að hljóta slíka vottun. Í ART er lögð áhersla á að þjálfa sjálfsstjórn, félagsfærni og siðferði og þar af leiðandi öðlast einstaklingurinn betri færni í mannlegum samskiptum. Á síðasta ári fékk leikskólinn styrk frá sprotasjóði til að efla ART kennslu, efla tækni og vinna að bættu námsmati.

Umhverfi leikskólans einkennist af fallegri náttúru sem býður uppá endalausa möguleika fyrir leik og nám. Börnin fara reglulega í leiðangra út fyrir afmarkað leiksvæði leikskólans ásamt starfsfólki. Má þar helst nefna ævintýraferðir í Indjánaskóg en í göngufæri eru líka fjárhús og fjós en þangað er börnunum boðið til að skoða nýfætt ungviðið, lömb og kálfa. Þá hefur elstu börnunum verið boðið að heimsækja hestabúgarð í grenndinni og fræðast um íslenska hestinn.

Haustið 2007 flutti leikskólinn úr gömlu húsnæði á Laugalandi í endurbætt pláss í aðalhúsnæðinu á Laugalandi og er því undir sama þaki og grunnskólinn, bókasafn, sundlaug og íþróttasalur. Einstakt samstarf hefur myndast við grunnskólann þar sem eldri börn leikskólans njóta góðs undirbúnings fyrir skólagönguna. Þá er íþróttasalurinn vel nýttur af öllum árgöngum og tveir elstu árgangarnir fara í sund og íþróttir með yngstu bekkjum grunnskólans.

Í könnun sem skólapúlsinn lagði nýlega fyrir foreldra nemenda á leikskólanum kom fram 100% almenn ánægja með leikskólann. Mikill meirihluti svarenda var mjög eða frekar ánægður með alla starfshætti og aðstöðu á leikskólanum, en 93% foreldra svöruðu könnuninni. Sjálfsmat skólans á undanförnum árum hefur reyndar alltaf verið á þá leið að mikil ánægja hefur verið með starfsemi skólans.

Milli foreldra og starfsfólks er síðan gott samspil. Starfsfólk er ávalt reiðubúið að ræða við foreldra um námsframvindu og líðan barnanna og almennt er gott flæði upplýsinga til foreldra. Samfélagið hefur síðan stutt dyggilega við starfsemi leikskólans á undanförnum árum en foreldrafélag leikskólans ásamt kvenfélögum og fyrirtækjum hafa safnað fyrir tækjabúnaði fyrir leikskólann, en þar eru í mikilli notkun spjaldtölvur og “smartboard” sem nýtist bæði í daglegu starfi sem og við sérkennslu.

Það er ómetanlegt að tilheyra foreldrahópi þessa frábæra leikskóla og viljum við því þakka starfsfólki leikskólans fyrir elju sína og dugnað, hlýju í garð barnanna okkar og síðast en ekki síst að standa fyrir metnaðarfullu skólastarfi.

Kristín Ósk Ómarsdóttir, Elín Grétarsdóttir og María Carmen Magnúsdóttir

Fyrri greinSex grunnskólamet slegin
Næsta greinTíu bíða eftir hjúkrunarrými