Fjólu til forystu!

Það er flestum ljóst að nauðsynlegt sé að það veljist fólk til forystu í bæjarstjórn Árborgar sem getur sameinað krafta sína og unnið saman næstu fjögur árin að því að gera sveitarfélagið enn betra en það er í dag.

Fjóla Kristinsdóttir, sem nú býður sig fram til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Árborg, hefur einmitt þá persónuhæfileika sem þarf til að geta sættað sjónarmið og tekið forystu í hinum ýmsu málum. Hún er vel menntuð, staðföst en þó sanngjörn og umfram allt góð og skemmtileg manneskja.

Fjóla býr svo vel að því að þekkja til stjórnsýslunnar í Árborg eftir að hafa starfað þar á velferðarsviði sveitarfélagsins í nokkur ár auk þess sem hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Reynsla hennar úr atvinnulífinu og þá ekki síst sú reynsla sem hún aflaði sér sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Landsbankans mun nýtast sveitarfélaginu vel nú og á næstu árum við að rétta fjárhag sveitarfélagsins við og koma honum í jafnvægi.

Það er mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Árborg að hafa í forystu einstakling sem líklegastur er til að koma Sjálfstæðisflokknum að við stjórnun sveitarfélagsins. Þar tel ég að Fjóla Kristinsdóttir fari fremst meðal jafningja.

Ég styð hana til forystu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg og ég skora á sem flesta að gera slíkt hið sama.

Petra Sigurðardóttir

Fyrri greinSpennandi stigakeppni á unglingamóti HSK
Næsta greinHamar HSK-meistari í blaki karla