Aðventan er handan við hornið og það er alltaf ákveðin hlýja í umhverfinu þegar jólaljósin eru kveikt og lýsa upp skammdegið. Íbúar og fyrirtæki í Árborg láta ekki sitt eftir liggja í þeim efnum og nú eru þéttbýliskjarnarnir að lýsast upp og nær það hámarki um helgina þegar kveikt verður á jólatrjánum á Stokkseyri og Eyrarbakka á fyrsta í aðventu. Það er fjölmargt skemmtilegt sem tengist Jólum í Árborg framundan, og má þar nefna hinn árlega ratleik Jólagluggann, sem hefst 1.desember nk. í bókasafni Árborgar á Selfossi. Viðburður sem upplagt er fyrir alla fjölskylduna að taka þátt í. Hér og þar um samfélagið er svo að finna viðburði og uppákomur á vegum samtaka og menningarhópa sem alltaf skipa sess í aðdraganda jóla. Ekki má gleyma jólasveinunum sem koma úr Ingólfsfjalli laugardaginn 13.desember og verður tekið á móti þeim í miðbæ Selfoss kl.16 þann dag.
Fjölgun leikskólaplássa
Leikskólamál hafa verið í forgrunni bæjaryfirvalda á árinu. Nýtt fyrirkomulag leikskóla, með lækkun mánaðargjalds og innleiðingu skráningardaga var samþykkt áfram eftir góða reynslu foreldra, barna og starfsmanna á tilraunatímanum. Veturinn 2024-2025 voru innan allra leikskóla í Árborg í heildina aðeins um sjö lokunardagar vegna forfalla og á tveimur leikskólum þurfti aldrei að grípa til lokunar deilda. Slíkt er frábær þróun sem mikilvægt er að styðja enn frekar við til framtíðar. Auk þess var ákveðið að bjóða upp á uppeldisnámskeið í öllum leikskólum sem hluta af aðlögun barna við upphaf leikskólagöngu. Námskeiðin hafa fengið góð viðbrögð enda markmiðið að efla fræðslu og samtal milli leikskóla og foreldra.
Nýjar leikskóladeildir voru opnaðar í leikskólanum Jötunheimum á árinu og bætti sveitarfélagið því við um tuttugu rýmum. Því var hægt að bjóða leikskólapláss fyrir öll börn sem urðu 18 mánaða gömul við upphaf aðlögunar sl. haust. Til þess að koma til móts við foreldra hefur niðurgreiðslu til foreldra sem nýta sér þjónustu dagforeldra verið hækkuð. Einnig var fest í sessi hækkun á niðurgreiðslu til foreldra barna sem verða 18 mánaða og eru með umsókn um leikskólapláss. Sem dæmi hækkar niðurgreiðsla ef barn verður t.d. 18 mánaða í janúar og fær síðan leikskólapláss í sumar. Foreldrar greiða þá á þeim tíma sambærilegt gjald og það væri á leikskóla.
Enn eru tækifæri til úrbóta í málefnum ungra barna og fyrir það fyrsta þyrfti ríkisvaldið að lengja fæðingarorlof og gefa foreldrum meira frelsi til ráðstöfunar á sínu orlofi. Slíkt væri gott skref í að hjálpa foreldrum að vera lengur með barni fyrstu árin ásamt því að draga úr bilinu milli loka fæðingarorlofs og upphafs leikskólagöngu eða annarrar dagvistunar. Á næsta ári er svo gert ráð fyrir að fjölga leikskólaplássum um fjörutíu og er það í takt við áherslur okkar um góða þjónustu við barnafjölskyldur.
Fjölskylduvænt samfélag
Samfélagið hér í Árborg er vinsælt og íbúum fjölgar á degi hverjum. Það er ánægjulegt að allir aldurshópar horfi til okkar góða samfélags og við finnum að barnafjölskyldur eru í talsverðum meirihluta. Sá sem hér skrifar getur vel tekið undir það að hér sé frábært að ala upp börn. Hér er gott starf hjá leik- og grunnskólum, fjölbreytt frístundastarf, öflug menning, þægilegar samgöngur, stutt í útivistarsvæði og öruggt umhverfi. Íbúðaverð er lægra en á höfuðborgarsvæðinu, þjónustustig hátt, skemmtilegur miðbær og stórt atvinnusvæði. Nær það í raun yfir mest allt suðvesturhornið sem gerir Árborgarsvæðið að frábærri staðsetningu fyrir alla aldurshópa.
Að lokum vona ég að sem flestir njóti aðventunnar og viðburða hér um allt næstu vikurnar. Ég minni á að á svæðinu er hægt að finna allt í jólainnkaupin: Með því að versla í heimabyggð styðjum við hvort annað í að viðhalda öflugu samfélagi í allra þágu.
Bragi Bjarnason
Bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg

