Fjölbreytt atvinnutækifæri í Árborg

Íbúafjöldi á Suðurlandi hefur verið ört vaxandi síðastliðin ár og því standa sveitafélögin frammi fyrir miklum áskorunum varðandi atvinnutækifæri í heimabyggð. Mín skoðun er sú að heildstæður samfélagslegur ávinningur hljótist af því að auka fjölbreytni í framkvæmd starfa og eru sem dæmi störf án staðsetningar ein leið til þess. Við þurfum að skapa ný atvinnutækifæri og færa störfin nær búsetu starfsfólks.

Uppbygging fjölbreyttara atvinnulífs utan höfuðborgarsvæðisins hefur lengi verið eitt af grunnmarkmiðum stefnumótandi byggðaáætlunar og er hluti markmiða þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til ársins 2024 að fjölga störfum án staðsetningar. Opinberar stofnanir og ráðuneyti þeirra hafa skilgreint hvaða störf er hægt að framkvæma utan sérstakra staðsetningar svo búseta hafi ekki áhrif á ráðningar starfsfólks. Stefnt er að því að árið 2024 verði 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra án staðsetningar. Inn á vef Byggðarstofnunar er að finna gagnvirkt kort með upplýsingum um húsnæði fyrir störf án staðsetningar og hér í Árborg höfum við til að mynda Fjölheima.

Sóknaráætlun Suðurlands, fyrir árin 2020 – 2024 byggir meðal annars á fjölgun opinberra starfa um 15% fyrir árið 2025, en sú fjölgun miðar jafnt að flutningi- og nýmyndun opinberra starfa á Suðurlandi. Með þessari hugmyndafræði er lögð rík áhersla á uppbyggingu á starfsaðstöðu fyrir störf skilgreind sem án staðsetningar.

Árborg er fjölmennasta sveitafélagið á Suðurlandi með tæplega 10.500 íbúa. Í ört stækkandi sveitafélagi líkt og Árborg þarf að huga að öllum stigum samfélagsins. Íbúar sem eru að stíga inn á vinnumarkaðinn að námi loknu ættu að geta séð framtíðarstörf sín innan heimabæjarins. Hér er að finna fjölbreytta atvinnu, menntun, velferðarþjónustu og góð búsetuskilyrði. Við þurfum stöðugt að endurmeta stöðuna og þörfina fyrir nýjar leiðir og atvinnutækifæri sem standa til boða. Það þarf að skilgreina kosti og galla og gera grein fyrir þeim möguleikum sem í boði eru. Markmið bæjarstjórnarinnar hefur verið að efla rannsóknir og aðstöðu fyrir störf án staðsetningar. Síðasta sumar skrifaði Sigurður Ingi Jóhannsson undir samning við Sigtún – Þróunarfélag um tilraunaverkefni sem felst í því að byggja upp vinnustofu í gamla Landsbankahúsinu á Selfossi. Þetta gefur þeim, sem sækja störf hjá hinu opinbera á höfuðborgarsvæðinu tækifæri til að stunda störf sína hér í Árborg. Ég tel þetta mjög mikilvægt og jákvætt skref í átt að bættri atvinnuþróun.

Ég tel að störf án staðsetninga geti haft jákvæð áhrif á samfélagið, með því að auka tækifæri íbúa sveitafélagsins til starfa í heimabyggð dregur það úr starfstengdum tímafrekum ferðalögum til og frá vinnu. Þá eykur það möguleika íbúa á að nýta þá þjónustu sem í boði er innan sveitafélagsins. Með samvinnu, góðri stjórnun og nýsköpun getum við haldið áfram að byggja ofaná grunninn að einhverju svo miklu meira.

Ellý Tómasdóttir,
frambjóðandi í 2. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Árborg fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Fyrri greinRobinson skaut Hrunamenn í kaf
Næsta greinHeiðin og Þrengslin lokuð