Fjárhagslegur ávinningur af vinnuvernd

Vinnuslys og vinnutengd vanheilsa valda fyrirtækjum, einstaklingum og þjóðfélögum auknum kostnaði.

Samkvæmt Alþjóðavinnumálastofnuninni er heildarkostnaður vegna þessa allt að 4% af vergri landsframleiðslu þjóða (ILO, 2006). Vert er að horfa til eftirfarandi:

  • Í Evrópu verða árlega um 6,9 milljónir starfsmanna fyrir vinnuslysum og 23 milljónir eiga við vinnutengda vanheilsu að stríða (Eurostat, 2010).
  • Í reglubundinni evrópskri könnun á vinnuaðstæðum meðal 44 þúsund starfsmanna árið 2010 kom í ljós að 24% telja sig búa við áhættu í vinnu með tilliti til öryggis og heilsu sem hefur þó fækkað frá 2005 (Eurofound, 2012).
  • Árlega verður um 3% af íslensku vinnuafli fyrir slysi, sem leiðir til þess að viðkomandi leitar sér hjálpar. Alvarleg slys og slys sem valda fjarvistum meir en einn dag á að tilkynna til Vinnueftirlitsins, en þessi slys hafa verið um1300 til 1400 á ári frá 2009. Þær atvinnugreinar þar sem flest vinnuslys voru tilkynnt árið 2011 eru

opinber stjórnsýsla,

fiskiðnaður, þ.e. hraðfrystihús/fiskvinnslustöðvar,

opinber þjónusta,

málm- og skipasmíði, véla- og skipaviðgerðir

bygging/viðgerð mannvirkja.

Kostnaður vegna vinnuslysa og vinnutengdrar vanheilsu
Vinnuslys og vinnutengd vanheilsa valda fyrirtækjum og stofnunum auknum kostnaði og minni tekjum. Menn gefa þessu sjaldnast nægilegan gaum enda kostnaður eða tap ekki alltaf augljóst nema kafað sé dýpra. Helstu atriði sem hafa áhrif eru eftirfarandi:

Fjárhagslegur ávinningur mikill
Rannsóknir sýna að stjórnendur á vinnustöðum telja að helsti hvati vinnuverndarstarfs sé að uppfylla lagaskyldu sem og siðferðislegar skyldur. Fjárhagslegum hliðum málsins hefur verið gefinn minni gaumur. Nýjar alþjóðlegar rannsóknir sýna nú að ávinningur af kerfisbundnu vinnuverndarstarfi er verulegur eins og þessi dæmi sýna:

  • Rannsókn meðal 300 fyrirtækja í 16 löndum leiddi í ljós að fjárfesting í vinnuvernd skilaði sér rúmlega tvöfalt tilbaka (2,2). Enginn munur var á fyrirtækjum eftir stærð en ávinningur þeirra sem voru skemmra á veg komnir reyndist meiri (Bräuning och Kosthall, 2012, sjá www.issa.int).

o Evrópsk rannsókn leiddi m.a. í ljós að 56 fyrirtæki í mismunandi starfsgreinum sem höfðu sett sér stefnu í vinnuvernd og fylgdu henni eftir með markvissum forvarnaraðgerðum endurheimtu kostnaðinn tilbaka með stuðlinum 1,29-2,89 (T. Moitinho o.fl., 2011, http://ec.europa.eu/social).

Vinnuverndarvikan 2013
Árlega er haldin Evrópsk vinnuverndarvika undir forystu Evrópsku vinnuverndar-stofnunarinnar og nú er vikan dagana 21.-25. október nk. Starfshópur skipaður fulltrúum atvinnulífsins og Vinnueftirlitsins sér um framkvæmd verkefnisins hér á landi.

Yfirskrift Evrópsku vinnuverndarvikunnar árin 2012-2013 er Vinnuvernd – allir vinna og er megináherslan lögð á sameiginlega ábyrgð stjórnenda og starfsmanna á vinnuvernd. Beinist herferðin aðallega að tveimur þáttum:

· Stjórnendur eru hvattir til að sýna forystu í vinnuverndar­málum með því að hafa starfsmenn með í ráðum og fylgja bestu mögulegu aðferðum við áhættumat og forvarnir, sjá reglugerð 920/2006 á www.vinnueftirlit.is.

· Starfsfólk og fulltrúar þeirra eru hvött til að deila hugmyndum og starfa með virkum hætti með stjórnendum að úrbótum í vinnuvernd fyrir alla.

Í tengslum við vinnuverndarvikuna verður haldin ráðstefna um stefnumótun í vinnuvernd á Grand Hótel Reykjavík fimmtudaginn 24. október. Markmið fundarins er að kalla eftir áhersluatriðum í vinnuvernd frá sem flestum aðilum á íslenskum vinnumarkaði.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismála­ráðherra mun ávarpa ráðstefnuna og eftir það verða flutt sex inngangserindi tengt nýrri stefnumótun. Í framhaldi af þeim verður umræða á vinnuborðum um stefnumótun í vinnuvernd til ársins 2020. Óskað hefur verið eftir víðtækri þátttöku aðila vinnumarkaðarins, þjónustuaðila í vinnuvernd, stofnana og fyrirtækja til þess að tryggja að öll sjónarmið komi fram sem skipta máli. Skráning á ráðstefnuna er á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is.

Ný tækifæri til bæta hag
Mikilvægt er að stjórnendur allra stofnana og fyrirtækja setji vinnuvernd á dagskrá og líti á það sem ábyrgð sína og stjórnunarlegt verkefni að samþætta hana í daglega starfsemi fyrirtækisins. Mikill fjárhagslegur ávinningur felst í því að vinna að forvörnum til að tryggja heilsu og öryggi starfsmanna. Það skilar sér í vexti og bættum hag fyrirtækja, stofnana, starfsmanna og þjóðfélagsins alls.

Þórunn Sveinsdóttir, deildarstjóri Vinnueftirlitinu

Fyrri greinStórtónleikar í Hveragerðiskirkju
Næsta greinFornleifaskráning er forsenda frekari skipulagsvinnu