Finnbogi og Þórður Már: 10 milljarða gjöf VG og S úr galtómum ríkissjóði – á ári!

Árið 1983 ákvað hópur manna að sölsa undir sig og þröngan hóp manna langverðmætustu auðlind Íslendinga.

Þessi gerningur hefur valdið gríðarlegum og hatrömmum deilum á meðal þjóðarinnar alla tíð síðan. Deilan hefur klofið þjóðina í tvennt. Samfylkingin og VG voru kosin út á fögur loforð um að leysa þessa deilu í eitt skipti fyrir öll. Í ríkisstjórnarsáttmálanum frá 2009 stendur:

Bregðast þarf frekar við áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, m.a. með því að gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.

Flokkarnir hugðust koma hér á nýju kerfi við úthlutun heimilda til að veiða fisk. Deilan er tvíþætt, annars vegar varðandi jafnræði við úthlutun leyfa (kvóta) og hins vegar að þjóðin fái fullt gjald fyrir notkunina. Báðir þættir eru jafn mikilvægir og háðir hvor öðrum. Þessi vandamál þóttust flokkarnir ætla að leysa. Þessi loforð voru flokkarnir kosnir út á.

Ný auðlind nemur land
Það átti að byggja hér nýtt og réttlátara samfélag, samfélag þar sem allir væru jafnir, allt í anda „jafnaðarmennskunnar“ svokölluðu. Svo gerðist það að splunkuný auðlind nam hér land, þessi auðlind kallast makríll. Þá þurfti að finna leið til að ákveða hvaða leið ætti að fara við úthlutun á leyfum til að nýta þessa auðlind. Ætti að fara gömlu leiðina sem flokkarnir þóttust vera að berjast gegn, eða ætti að fara þá nýju leið sem flokkarnir þóttust vera að berjast fyrir?

Nú liggur niðurstaðan fyrir: Í reglugerð nr. 327/2013 um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa kemur þetta í ljós, en þar segir m.a.:

87.303 lestum skal ráðstafað til skipa sem veitt hafa makríl í flottroll og nót á árunum 2007, 2008 og 2009 og skal skipt hlutfallslega miðað við aflareynslu þeirra á árunum 2007, 2008 til og með 11. júlí 2009, miðað við landaðan afla, að undanskildum sérstökum heimildum til veiða í lögsögu Færeyja.

Þetta þýðir að 87.303 tonnum er ráðstafað eftir gamla LÍÚ laginu! Loforð ríkisstjórnarflokkanna um jafnræði við úthlutun var því ekki bara svikið, heldur er nú enn ein auðlindin gefin og einkavædd! Flokkarnir fóru því gömlu leiðina sem þeir þóttust vera að berjast gegn!

Nýr gjafakvóti upp á að lágmarki 10 milljarða árlega
Heildarúthlutun á makríl fyrir yfirstandandi fiskveiðiár er um 123.000 tonn. Veiðigjaldið sem lagt er á endar að jafnaði í um 10 kr. á kg. þegar tekið er tillit til lækkunarheimilda. Þetta gerir um 1,2 milljarða á ári. Ef flokkarnir hefðu ákveðið að fara þá leið sem þeir þykjast berjast fyrir og bjóða upp heimildirnar, líkt og Færeyingar hafa gert þegar þeir fengu um 100 krónur fyrir hvert kg. af óveiddum makríl, hefðu tekjur ríkissjóðs getað orðið 12,3 milljarðar. Miðað við það verð sem hægt er að fá í Færeyjum hefði því verið hægt að fá um 11 milljörðum meira fyrir heimildirnar með því kerfi sem flokkarnir þóttust berjast fyrir. Í staðinn var ákveðið að gefa bara draslið og taka árlega sárabót fyrir, eða þar til Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur komast aftur til valda og afnema gjaldið.

Siðleysið nær nýjum lægðum
Þetta er sem sagt kerfið sem Samfylking og VG berjast raunverulega fyrir, kerfi forréttinda, gjafakvótakerfi árgerð 2013. Það hefur löngum verið talinn einn stærsti glæpur Íslandssögunnar þegar þröngum hópi manna var afhentur einkaréttur til að nýta sameiginlega auðlind landsmanna. Nú hafa Samfylking og VG ákveðið að taka siðleysið á næsta stig og gefa um 10 milljarða árlega út úr galtómum ríkissjóði! Og þá erum við að tala um makríl eingöngu. Til hvers að hafa Landsdóm ef honum er ekki ætlað að taka á slíkri hreinræktaðri glæpastarfsemi?

Samfylking og VG hafa því afhjúpað sjálfa sig sem sömu glæpaflokka og þeir hafa sjálfir gagnrýnt fyrir að verja forréttindi fárra. Samstaða fjór(fimm)flokksins er algjör. Skjaldborgin er um gjafakvótann.

Þórður Már Jónsson hdl. 2. sæti XL í Norðausturkjördæmi.

Finnbogi Vikar viðskiptalögfræðingur og sjómaður, 1. sæti XL í Suðurkjördæmi.

Fyrri greinBanaslys í Herdísarvík
Næsta greinRukkað fyrir próftöku í Fjölheimum