Færum þjónustuna nær fólkinu

Ef íbúum á landinu öllu hefði fjölgað jafn hratt og í Árborg frá aldamótum, væru landsmenn komnir vel yfir hálfa milljón. Það hefur nefnilega verið ævintýralegur vöxtur í Árborg síðastliðin ár. Þessum vexti fylgja ýmis tækifæri en líka áskoranir. Verkefni sveitarstjórnarinnar á næsta kjörtímabili verður að byggja upp innviði og þjónustu við íbúa í ört vaxandi sveitarfélagi.

Við í Vinstri grænum teljum mikilvægt að við þessa uppbyggingu höfum við jöfnuð, jafnrétti og umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Þess vegna finnst okkur það meðal annars vera lykilatriði að þjónustan sé nálægt fólkinu.

Hugsum skipulagið upp á nýtt
Í dag eru aðal matvöruverslanirnar í Árborg við Austurveg. Íbúar sveitarfélagsins þurfa yfirleitt að fara í búð við þennan fjölfarna veg með tilheyrandi umferðarbið. En er hægt að hugsa þetta skipulag upp á nýtt? Væri ekki hægt að bjóða upp á þjónustu sem þessa í fleiri hverfum og einnig á Stokkseyri og Eyrarbakka?

Það væri til dæmis auðveldara að skreppa út í búð og við gætum oftar labbað sem er gott fyrir bæði umhverfið og heilsuna. Það myndi líklega spara okkur tíma, en í öllu falli værum við ekki að eyða tímanum okkar í umferð eða bílastæðaleit. Þannig viljum við Vinstri græn hafa þjónustuna í sveitarfélaginu: Nálægt okkur íbúunum.

Árborg er ein heild
Í uppbyggingunni megum við síðan alls ekki gleyma Stokkseyri og Eyrarbakka. Árborg er ein heild og það er mikilvægt að samhliða fólksfjölgun í sveitarfélaginu að uppbygging grunninnviða og þjónustu eigi sér stað á ströndinni. Það verður því að setja uppbyggingu nýs skóla á Eyrarbakka í forgang.

Við viljum einnig skoða hvort hægt væri að bjóða upp á heilbrigðisþjónustu tvo daga í viku á bæði Stokkseyri og Eyrarbakka, en slíkt fyrirkomulag hefur verið áður. Uppbygging þjónustu niðri á ströndinni myndi efla þá byggðarkjarna og sveitarfélagið allt.

Samfélagið breytist ekki af sjálfu sér
Íbúafjölgun og tilheyrandi uppbygging kallar á að við spyrjum okkur hvernig við viljum sjá samfélagið okkar þróast. Að geta sótt daglega þjónustu í sitt í nærumhverfi er mikið lífsgæðamál og þjónustan verður persónulegri. Með örri tækniþróun skapast líka tækifæri til að finna hagkvæmar leiðir til að bæta þjónustu við íbúa í allri Árborg.

En hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér. Það þarf að koma málum á dagskrá og þora að berjast fyrir þeim. Það erum við í VG tilbúin að gera.

Leifur Gunnarsson og Kristrún Júlía Halldórsdóttir
Höfundar eru í 6. og 8. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg.

Fyrri greinSterk liðsheild til forystu í Sveitarfélaginu Árborg
Næsta greinSérstaða Áfram Árborgar