Eyþór Jóvins: Hættur við að auglýsa framboðið

Þegar ég tók þá ákvörðun að gefa kost á mér til setu á stjórnlagaþingi lagði ég 50.000 kr. til hliðar sem ég ætlaði að nota til að kynna framboð mitt, stefnumál og hugsjónir.

Enda með öllu óþekktur í íslensku samfélagi.

Þegar ljóst var að frambjóðendur myndu verða 523 þá varð það einnig ljóst að kosningabaráttan myndi verða erfið. Það hefur heldur betur komið á daginn, því á meðal þessara rúmlega 500 frambjóðenda eru margir þjóðkunnir menn, atvinnubloggarar og aðrir sem hafa greiðan aðgang að fjölmiðlum. Þá hafa einnig nokkrir frambjóðendur kosið að leggja gríðarlega fjármuni í kosningabaráttuna, í von um sæti á stjórnlagaþingi.

Það er ljóst að mínar hóflegu 50 þúsund krónur mega sín lítils í slíkri baráttu. Því hef ég ákveðið að hætta kaupum á auglýsingum og kynningarefni og finna betri not fyrir peninginn. Því ætla ég að færa Fjölskylduhjálpinni á Akureyri 50 þúsund krónur að gjöf til aðstoðar við fátæka á Íslandi. Það er einlæg sannfæring mín um að peningarnir muni reynst þeim betur en mér.

Í aðdraganda stjórnlagaþings hef ég orðið enn sannfærðari um að persónukjör án þátttöku stjórnmálaflokka sé slæm leið til að velja menn á Alþingi. Það er skiljanlegt að það ríki mikil reiði í garð stjórnmálaflokka og traust til þeirra og Alþingis í heild sé orðið lítið. Því eru háværar kröfur um að taka upp persónukjör. En við megum ekki láta stundarreiði byrgja okkur sýn á mikilvægu hlutverki stjórnmálaflokka.

Stjórnmálaflokkar eru vettvangur fyrir fólk með svipaðar skoðanir og hugsjónir, þar geta menn sameinað kraft sinn til að knýja fram mikilvæg umbótamál. Af þeim 523 sem eru í framboði til stjórnlagaþings hafa margir áþekkar skoðanir. Sjálfur hef ég fengið fjöldann allan af pósti frá öðrum frambjóðendum þar sem mér er boðið samstarf, annaðhvort á grundvelli skoðana, aldurs eða búsetu. Þar sem aðrir frambjóðendur vilja samnýta kraft okkar til að koma okkar málum á framfæri.

Þá kvarta margir kjósendur yfir því að það sé ógerningur að kynna sér alla frambjóðendur og fyrir hvað þeir standa. Með stjórnmálaflokkum hafa kjósendur skýrara val sem auðveldar þeim að finna það stjórnmálaafl sem rímar best við skoðanir þeirra.

Þá er einnig hávær umræða um að gera landið að einu kjördæmi, þar sem öll atkvæði vega jafnþungt. Að sjálfsögðu eiga öll atkvæði að hafa sama vægi en reynsla mín af kosningabaráttu í einu kjördæmi er ekki góð. Ég hef fengið fjölda boða um kynningarfundi og samkomur þar sem frambjóðendum býðst að koma og kynna sig og sín málefni. Undantekningarlaust hafa þessir fundir verið haldnir í Reykjavík. Þar sem ég er ekki staddur í Reykjavík, hef ég þurft að afþakka öll slík boð og þar með orðið af góðri og ódýrri kynningu.

Verður það sama upp á teningnum í komandi alþingiskosningum ef landið verður gert að einu kjördæmi? Að það verði ógjörningur að bjóða sig fram nema að hafa fasta búsetu í Reykjavík, þar sem flestir kjósendur eru?

Ég vil fara varlega í breytingar á stjórnarskránni. Hófsemi og skynsemi á að leiða það starf en ekki ofsi og reiði. Að kollvarpa kosningakerfinu, grunnstoð lýðræðisins, fylgir mikil ábyrgð. Vissulega er ég opinn fyrir því gera einhverjar breytingar, til að mynda með því að auka vægi útstrikana og veita kjósendum meira vald í uppröðun lista. Það má jafnvel opna að einhverju leyti persónukjör samhliða flokkskjöri eða kjósa þvert á flokka.

Í grunninn er það ekki kosningakerfið sem hefur brugðist okkur, heldur núverandi stjórnmálaflokkar. Nú býðst okkur einstakt tækifæri til að endurskrifa stjórnarskrána með það að leiðarljósi að skilgreina hlutverk stjórnmálaflokka, valdheimildir þeirra og verksvið.

Að gefnu tilefni skal það tekið fram að ég er ekki tengdur neinum stjórnmálaflokki og hef aldrei verið.

Eyþór Jóvinsson
Frambjóðandi nr. 3029 til stjórnlagaþings
www.jovinsson.is

Fyrri greinBragðdaufur sigur í Hveragerði
Næsta grein„Við mættum þeim af krafti“