Eyþór Arnalds: „Við viljum vinna!“

Slagorð ASÍ þann 1. maí gat varla verið skýrara; „Við viljum vinna!“ Atvinnuleysið er bláköld staðreynd í íslensku samfélagi og getur haldið áfram að aukast enn.

Í Árborg eru 510 manns án atvinnu eða 9,5% allra á aldrinum 15-70 ára. Þessi tala er mun hærri en almennt gerist á Suðurlandi og er óásættanleg fyrir okkur öll.

Við fall bankanna varð ljóst að nú myndu hjólin stöðvast. Það var því mörgum gleðifregn þegar bæjarstjórnarmeirihluti Árborgar kynnti stórtæk áform á blaðamannafundi þann 11. nóvember 2008 í Tryggvaskála. Ríkisútvarpið og aðrir fjölmiðlar sögðu samviskusamlega frá þeim fagnaðar-fréttum að nú yrði ráðist í „Þekkingargarða“ á Selfossi. Eða eins og sagði í fréttum RÚV: „Á milli tvö og þrjú hundruð ný störf verða til á Selfossi með byggingu Þekkingargarðs í miðbænum. Byggja á 6000 fermetra hús í fyrsta áfanga þar sem starfsemi mun hefjast eftir tvö ár.“ Nú eru þau brátt liðin þessi tvö ár og ekkert hefur orðið af þessu framtaki. Því miður.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem ekkert verður af boðuðum „görðum“ því skemmst er að minnast mikilla „Vatnagarða“ sem hér áttu að rísa. Ekkert kom út úr þeirri fyrirætlan nema ferð bæjarfulltrúa til Danmerkur. Þau tvö hundruð til þrjú hundruð störf sem heitið var með byggingu „Þekkingargarða“ af hálfu bæjarstjórnarmeirihlutans hefðu lækkað atvinnuleysið um helming.

Betra er að lofa sem minnstu og vekja ekki væntingar sem ekki verður staðið við. Í staðinn er vænlegra að hlusta á þarfir atvinnurekenda, vinna að lausnum en stilla sköttum og öðrum álögum í hóf. Sveitarfélagið á að auðvelda fyrirtækjum að hasla sér völl og forðast að leggja stein í götu þeirra.

Tækifærin í atvinnumálum felast ekki síst í samstöðu Sunnlendinga sem er sérlega mikilvæg þegar ríkið er annars vegar. Hér á ég sérstaklega við stækkun Litla-Hrauns, tvöföldun Suðurlandsvegar, orkufrekan iðnað og Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Í kreppunni þarf ekki síður að hlú að þeirri starfssemi sem hér er og standa vörð um þau störf sem hér eru. Gleymum því ekki.

Höfundur er oddviti sjálfstæðismanna í Árborg.

Fyrri greinTilþrif hjá torfærumönnum
Næsta greinGosið aftur orðið öskugos