Erna J: Rándýr tómstundaakstur í Flóahreppi

Það er gott að búa í Flóahreppi, hér eru góðir skólar, gott fólk og gott samfélag. Það getur þó stundum verið flókið að búa í sveitinni, sérstaklega þegar þarf að koma blessuðum börnunum í tómstundir.

Flóahreppur er nálægt Selfossi og því er ákjósanlegt að börnin í Flóahreppi sæki í fjölbreytt tómstundastarf þar.

Nýverið sat ég fund hjá foreldrafélagi Flóaskóla. Þar var tekið mál fyrir varðandi tómstundaakstur vegna nýlegra upplýsinga frá sveitarstjórn að hækka ætti gjaldið fyrir hverja ferð í tómstundaakstri úr 500 krónum í 750 krónur. Gefum okkur að tvö börn frá sama heimili þurfi að fara á Selfoss á fótboltaæfingu 3x í viku. Það heimili þarf þá að borga um það bil 160 – 170.000 krónur fyrir tómstundaakstur á Selfoss frá Flóaskóla yfir veturinn. Með þessu kostar aksturinn á Selfoss meira en sjálf tómstundin sem börnin eru að sækja. Þetta er allt of mikill kostnaður fyrir hvert heimili sem leiddi til þess að of fá börn skráðu sig og tómstundaaksturinn féll niður þannig að nú erum við aftur komin í þá stöðu að enginn akstur er á Selfoss frá Flóaskóla.

Það má taka fram að einn skólabíll fer á Selfoss og þau börn sem eiga föst sæti í þeim bíl komast alltaf á Selfoss ef þau vilja án endurgjalds. Hin börnin sem eiga ekki sæti í þessum bíl komast ekki á Selfoss. Sveitarstjórn ætlar samt að krefjast endurgjalds frá þeim foreldrum sem eiga ekki börn í Selfossbílnum. Þarna er verið að mismuna nemendum skólans. Ég vil einnig taka fram að sá bílstjóri sem keyrir Selfossbílinn á engan þátt í þessu máli og hefur hann alltaf gert sitt besta til að koma til móts við okkur foreldrana.

Fram kom á fundinum að sveitarstjórn hefur ekki sýnt viðleitni til þess að finna ódýrari lausn á þessu vandamáli. Það var til dæmis ekki reynt að semja við skólabílstjóra um það hvort þeir væru tilbúnir að taka þessa þjónustu að sér sem væri mun ódýrari lausn fyrir sveitarfélagið. Auk þess enda flestir skólabílanna sinn daglega rúnt nálægt Selfossi þannig að það væri ekki mikill kostnaður falinn í því að borga þeim fyrir þessa fáu aukakílómetra á Selfoss þá daga sem nemendur eru í tómstundum og veita þannig íbúum hreppsins góða þjónustu og gera Flóahrepp samkeppnishæfan við önnur sveitarfélög og ákjósanlegan stað til að búa í fyrir fólk með börn.

Ég veit að sá skólabílstjóri sem keyrir á Selfoss bauðst til að taka þennan akstur að sér fyrir sanngjarnan pening en sveitarstjórn var ekki tilbúin til þess að semja við hann og fór frekar þá leið að semja við verktaka og rukka foreldra fyrir aksturinn. Mér finnst undarlegt að vinnubrögð sveitarstjórnar séu þannig að hún sé með einfalda og ódýra lausn í höndunum en kjósi kost sem er dýrari fyrir íbúa hreppsins. Ég fæ á tilfinninguna að sveitarstjórn sé ekki að vinna með hagsmuni íbúa fyrir brjósti í þessu máli.

Erna Jóhannesdóttir, íbúi í Flóahreppi.