Er uppsetning sjóvarmadælustöðvar fýsileg í Árborg?

Á 23. fundi Eigna- og veitunefndar í Svf. Árborg þann 17. október sl., lagði ég til að gerð yrði fýsileikakönnun á því hvort uppsetning á sjóvarmadælustöð, í líkingu við þá sem nú er starfrækt í Vestmannaeyjum, yrði sett upp í Svf. Árborg með eftirfarandi rökum:

Vegna viðvarandi skorts á heitu vatni til húshitunar í Svf. Árborg er ljóst að líta verður til fjölbreyttari aðferða við öflun á heitu vatni en nú er gert.

Hitaveita Selfossveitna stendur nú á ákveðnum tímamótum þ.s. hefðbundin orkuöflun stendur ekki lengur undir þeirri uppbyggingu sem er áætluð í Svf. Árborg næstu ár og áratugi. Auk þess eru mjög kostnaðarsöm og krefjandi viðhalds- og endurnýjunarverkefni framundan og má sem dæmi nefna að endurnýjun á stofnlögn hitaveitunar frá Selfossi niður á Eyrarbakka og Stokkseyri getur ekki beðið mikið lengur og er áætlaður kostnaður um 1 – 2 milljarðar.

Hitaveita Suðurnesja hefur rekið sjóvarmadælustöð í Vestmannaeyjum frá árinu 2018 með ágætum árangri og sér hún um hátt í 1500 húsum fyrir rúmlega 70°C heitu vatni og annar yfir 90% af allri heitavatnsþörf í Vestmannaeyjum. Hún nýtir um 6 – 11°C heitan sjó úr borholum við framleiðsluna á heitu vatni en á Eyrarbakka eru borholur í sjó sem gefa sama hita og jafnvel hærri.

Mikilvægt er því að skoða sérstaklega hvort kostnaðurinn við að framleiða heitt vatn með sjóvarmadælustöð standi undir því að reisa og reka slíka stöð á Eyrarbakka eða Stokkseyri, leggja tvöfallt kerfi í öll hús í þorpunum tveimur og aftengja við núverandi dreifikerfi Selfossveitna. Við það myndi sparast heitt vatn sem nýta mætti á Selfossi og nágrenni og endurnýjun á stofnlögninni niður á Eyrarbakka og Stokkseyri yrði óþörf þ.s. sjóvarmadælustöðin myndi sjá þeim fyrir heitu vatni.

Ef litið er til hvernig Selfossveitur geta nýtt sem best það heita vatn sem nú er framleitt á orkuöflunarsvæðunum í nágreni Selfoss þá er skynsamlegt að nýta það sem næst upptökum þess. Vegalengdin niður á strönd er nokkuð löng og orkutapið á leiðinni er töluvert bæði hvað varðar lækkun á hitastigi og vatnsmagns sem skilar sér ekki alla leið vegna leka. Af þeim sökum þarf meira af heitu vatni til húshitunar á Eyarabakka og Stokkseyri með tilheyrandi kostnaðarauka en fyrir sambærilegt húsnæði á Selfossi.

Það er til mikils að vinna fyrir Sveitarfélagið Árborg ef þessi leið til framleiðslu á heitu vatni myndi reynast fýsileg. Uppbygging á Eyrarbakka og Stokkseyri yrði ekki lengur háð afhendingu á heitu vatni frá Selfossi og heitt vatn sem ekki þyrfti lengur að flytja niður á strönd yrði hægt að nýta til áframhaldandi uppbyggingu á Selfossi og nágrenni.

Þessi lausn gæti gefið Selfossveitum svigrúm og tíma til að endurskoða framleiðslu og sölu á heitu vatni í Svf. Árborg með það í huga að nýta og endurnýta heitt vatn á mun skilvirkari hátt en nú er gert. Það er í raun ekki lengur boðlegt á tímum aukinnar umhverfisvitundar að starfsemi Selfossveitna gangi ennþá út á að finna heitt vatn, virkja og henda. Það er ósjálfbært til lengri tíma eins og komið hefur í ljós í Svf. Árborg.

Á fundinum var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að 2 milljónum að lágmarki verði varið í verkefnið árið 2024 og gert verði ráð fyrir þeim fjármunum í fjárhagsáætlun þess árs. Það verður því áhugavert að fylgjast með hver niðurstaða væntanlegrar fýsileikakönnunar verður og vonandi kemur hún í ljós fyrr en síðar á næsta ári.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson
Bæjarfulltrúi S-lista

Fyrri greinFjórir framtíðarleikmenn semja við Selfoss
Næsta greinNítján sækja um starf markaðs- og kynningarfulltrúa