Endurbætt safnaðarheimili tekið í notkun

Nú eru liðin rúm sex ár frá því Safnaðarheimili Oddasóknar á Hellu var tekið í notkun og blessað.

Þar fór Safnaðarstarf sóknarinnar að mestu fram og kom strax í ljós að mikil eftirspurn var eftir slíku húsnæði á Hellu. Því ákvað sóknarnefnd Oddasóknar að stækka við sig og var eystri hluti húsnæðisins keyptur í ágúst 2010.

Fékkst styrkur úr Kirkjumálasjóði til kaupanna. Samráð var haft við sveitarstjórn Rangárþings Ytra og Ásahrepp um hvernig nýta bæri húsið á sem hagkvæmastan hátt. Í vor var undirritaður samningur við þessi sveitarfélög að starf eldri borgara í sýslunni fái fastan samastað í húsinu fyrir handavinnu, kóræfingar og spilastundir.

Einnig að ýmis menningar- og mannúðarfélög sem á svæðinu starfa fengju þar aðstöðu. Nú í ágúst var farið á fullt í að klára húsnæðið og komu að þeirri vinnu sjálfboðaliðar úr röðum sóknarnefndar og þeirra félaga sem vildu nýta húsnæðið.

Sóknarnefnd gerði samning við Harmonikufélag Rangæinga, Karlakór Rangæinga, Kvenfélagið Unni, Kvennakórinn Ljósbrá, Leikfélag Rangæinga og Samkór Rangæinga sem fá aðgang að húsnæði gegn því að koma að þrifum og að halda árlega styrktarsamkomu fyrir húsnæðið og starfsemina. Þá hefur Rauði krossinn styrkt aðstöðuna en vikulega eru á hans vegum haldnir prjónafundir í húsinu. Í millibyggingu hússins verður skrifstofa sóknarprests og prófast Suðurprófastdæmis. Nú er starfsemin í húsinu að fullu hafin og talar dagskrá þess sínu máli, þar sem alla daga vikunnar er eitthvað um að vera bæði yfir miðjan daginn sem og á kvöldin.

Það hefur verið gaman og merkilegt að fylgjast með þessari uppbyggingu, að sjá líf færast yfir húsið, finna kaffiilminn leggja frá því og taka á móti gestum og gangandi. Húsnæðið mun án efa efla og styrkja menningarlíf á staðnum sem og að efla samstöðu og kærleika með okkur manneskjunum sem hér störfum og bú um. Vill sóknarnefnd koma á framfæri þökkum til allra sem hafa stutt húsnæðið með gjöfum, vinnu og ekki hvað síst hvatningarorðum um ágæti þess sem unnið er að og byggt upp.

Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur

Fyrri greinMinningarmót um Fischer á næsta ári
Næsta greinSíðasti kaffitíminn