Elín Guðmunds: Af hverju að endurskoða stjórnarskrána?

Margir frambjóðendur til stjórnlagaþings tengja breytingu á stjórnarskránni beint við nýja tíma í kjölfar efnahagshrunsins.

Þó svo að ákveðið hefur verið að fara út í þessi mál í kjölfarið á hruninu, held ég að það sé ekki skynsamlegt að fara beint út í það að fjalla um þessar breytingar með það í huga. Við þurfum að fara út í endurskoðun á stjórnarskrá með yfirveguðum hætti, af skynsemi og röksemi.

Það má ekki gleyma því að stjórnarskráin er að mörgu leyti góð. Þau rök að breyta þurfi stjórnarskránni vegna þess að hún sé gömul, tel ég ekki nægjanleg. Stjórnarskrár margra annara ríkja eru enn eldri. Það sem hefur eflaust háð okkur er að viss umdeild málefni hafa ekki náð lendingu á þingi.

Ég vil líta á endurskoðun stjórnarskrár sem tækifæri fyrir almenning til að leggja sitt af mörkum við að laga það sem þarf að laga, breyta og bæta. Ég tel að það sé margt sem þarf að endurskoða og ræða, án þess að kasta núverandi stjórnarskrá algerlega til hliðar. Ég vil vinna að þessum málum af skynsemi og röksemi.

Á laugardaginn höfum við einstakt tækifæri til að hafa áhrif. Það er mikilvægt að kjósendur kynni sér helstu málefni, frambjóðendur og mæti vel undirbúnir á kjörstað á laugardaginn.

Þinn stuðningur yrði mér ómetanlegur.

Elín Guðmundsdóttir.
Frambjóðandi til stjórnlagaþings nr 2105.
www.elin2105.is

Fyrri greinSkipulagi Bitruvirkjunar frestað
Næsta greinAnnað tap FSu