Elín Finnboga: Vinstri græn og umhverfisvæn

Umhverfisstefna Vinstri grænna byggist á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem er skilgreind á þann veg að hún gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum.

Við berum þá ábyrgð að skila umhverfi okkar í jafngóðu og helst betra ástandi til þeirra sem taka við því.

Sjálfbær þróun snertir samfélagið allt og snýst um siðferðilega afstöðu okkar allra til samfélagsins og umhverfisins. Þess vegna er mikilvægt að lögð sé áhersla á samspil vistfræðilegra, samfélagslegra og efnahagslegra þátta og að við gætum þess að ganga ekki á höfuðstólinn þegar við tökum ákvarðanir.

Árið 2005 var metnaðarfull umhverfisstefna sveitarfélagsins sett fram sem mér þótti mjög flott og í takti við þann tíðaranda sem þá ríkti. Stefnumörkun var skýr og metnaðarfull og fyllti mig von um að tekið yrði á umhverfismálum á þann hátt sem kemur orðrétt fram í Umhverfisstefnu Sveitarfélagsins Árborgar: „…af mikilli festu til að vera í fararbroddi í þessum mikilvæga málaflokki, öðrum til fyrirmyndar og eftirbreytni“. Allt var á réttri leið til sjálfbærrar þróunar. Áætlað var að fá vottun frá Beluga og íbúar sveitarfélagsins voru hvattir til að flokka og aðgengi til flokkunar einfaldað. En svo er eins og áhuginn hafi fjarað smám saman út og nú er ekkert að finna um Beluga eða aðrar hugmyndir um umhverfisvottunarferli.

Í Árborg eru blátunnur við hvert heimili sem taka við pappír og er það vel. Að öðru leyti finnst mér lítið spáð í umhverfismál og þegar önnur sveitarfélög halda áfram að þróast í umhverfismálum og bæta og laga þá finnst mér eins og Árborg sé að komast aftur á byrjunarreit. Lægðin í málaflokknum fyllir mig þörf fyrir að vekja og endurvekja. Koma á grænu bókhaldi, endurskoða umhverfisstefnuna, nýta hana vel og hafa hana til hliðsjónar. Þegar sveitarfélag setur fram stefnu leggur það fram vinnuplagg sem þarf alltaf að taka tillit til við ákvarðanatöku og vera í sífelldri endurskoðun.

Sveitarfélag sem hefur metnaðarfulla umhverfisstefnu og sýnir það og sannar í hverjum kima að farið sé eftir henni er aðlaðandi sveitarfélag sem íbúar eru stoltir af og vilja sýna gestum sínum. Við berum meiri virðingu fyrir þeim sem ganga um jörðina af virðingu og við virðum betur jörð sem sýnd er virðing. Virðing er borin fyrir sveitarfélagi sem hvetur íbúa sína til sjálfbærrar þróunar, er meðvitað um umhverfishættur og er til fyrirmyndar í umhverfisvernd. Þannig getum við aukið huglægt og hlutlægt gildi svæðisins í heild. Mér finnst Sveitarfélagið Árborg eiga það inni hjá okkur og ég vil rétta hlut þess í umhverfismálum.

Elín Finnbogadóttir, skipar 4. sæti á lista Vg í Árborg.