Elfa Dögg: Suðurland – Hvorki meira né minna!

Á vegum stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) er nú unnið að viðamiklu verkefni við innleiðingu sóknaráætlunar fyrir landshluta sem unnin er í samræmi við Ísland 20/20.

Verkefnið miðar að því að efla styrkleika hvers landssvæðis fyrir sig, eflingu atvinnulífs og gerð fjárfestingaráætlunar sem lögð verði fram fyrir landssvæðið í haust og í framhaldi af því lögð fyrir fjárlaganefnd vegna gerðar fjárlaga 2012. Einstök verkefni verða þannig fjármögnuð til langs tíma, en önnur með sameiningu vaxtarsamninga, menningarsamninga og endurskipulagningu og sameiningu á stoðkerfi atvinnu- og byggðaþróunar.

Fjárfestingar á Suðurlandi.

Eins og fyrr segir er verkefnið risavaxið og því mikilvægt að rétt sé farið af stað í upphafi, skipinu stýrt rétt af stað. Til þess að tryggja það hefur verið myndaður 65 manna stýrihópur um verkefnið en 8-9 manna framkvæmdaráð mun bera ábyrgð á framgangi verkefnisins og miðla verkefnum í ákveðna farvegi. Munu 10 verkefnishópar fá til umfjöllunar ólíka verkefnaþætti. Í haust munu niðurstöður verða yfirfarnar og ákveðin verkefni sett inn á fjárfestingaráætlun sem lögð verður fyrir ríkisvaldið til samþykktar. Forgangsröðun verkefna verður því á hendi heimafólks sem hlýtur að leiða til farsælli niðurstöðu en valdboðinna aðgerða og beinna tillagna ríkisvaldsins sem etv. væru ekki í takt við vilja og framtíðarsýn íbúa mismunandi landssvæða.

Orku- og atvinnumála ráðstefna.

Þann 29. apríl n.k. verður haldin ráðstefna á vegum SASS, AÞS og Markaðsráðs Suðurlands um orku- og atvinnumál á Suðurlandi. Dagskrá ráðstefnunnar er afar metnaðarfull þar sem valinkunnir fyrirlesarar verða með spennandi erindi um nýjungar, tækifæri og sérstöðu Sunnlendinga. Á slíkri uppákomu er þó ekki hægt að ætlast til að náð sé utan um atvinnulíf svæðisins í heild sinni, en líta má svo á að hér sé um ákveðið upphaf að ræða á þeirri vinnu sem nú er framundan varðandi sóknaráætlun á Suðurlandi.

Hvet ég alla til að skrá sig á ráðstefnuna, enda um einstakan viðburð að ræða um þau ólíku og fjölmörgu tækifæri sem við sunnlendingar eigum.

Elfa Dögg Þórðardóttir

Formaður SASS

Fyrri greinRangæingar vilja landsfund
Næsta greinMikil ánægja með nýtt mötuneyti