Eiríkur Mörk: Er ekki kominn tími til að breyta?

Vitaskuld á spurningin rétt á sér, spurningin um það hvort þurfi að breyta stjórnarskránni.

Varla gæfi ég kost á mér til setu á stjórnlagaþingi, nema ég svaraði þessu eindregið játandi. Verkefnið hefur legið lengi fyrir og Alþingi hefur allt frá stofnun lýðveldisins lagt mikla vinnu í endurbætur og reyndar þegar gert á stjórnarskránni allmargar breytingar, en hefur þó aldrei lokið verkinu.

Oft var sem sagt þörf, en nú er nauðsyn að ljúka gagngerri endurskoðun á þessum grundvelli íslenska lýðveldisins í ljósi reynslu undanfarinna ára. Ný og þaulhugsuð stjórnarskrá hlýtur að vera mikilvægur þáttur í endurreisn íslenska lýðveldisins. Hrunið varð ekki vegna stjórnarskrárinnar, en skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis gefur stjórnsýslu okkar falleinkunn. Grunnur stjórnskipunar er í stjórnarskránni, er ekki gott að byrja á grunninum þegar menn ætla að breyta og bæta?

Breyta hverju?
Ég legg áherslu á aukið lýðræði með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Minnihluti þingmanna þarf að geta skotið málum til þjóðarinnar. Tiltekinn fjöldi kjósenda geti líka sent mál í þjóðaratkvæði. Þessi tilhögun myndi hafa mikil áhrif á starfshætti á Alþingi, samráð og samstarf myndi leysa af það ólýðræðislega meirihlutaofríki sem við þekkjum svo allt of vel.
Þjóðin skal vera stjórnarskrárgjafi í lýðræðisríki. Með núverandi fyrirkomulagi standa Alþingismenn frammi fyrir freistnivanda varðandi stjórnarskrána. Alþingi fær völd sín samkvæmt stjórnarskrá, en hefur jafnframt vald yfir henni. Þingmenn eru sem sagt bæði yfir og undir stjórnarskránni, sem býður heim verstu gerð freistnivanda.

Stjórnarskráin er undirstaða stjórnarfarsins, sem í nútímalegu lýðræðisríki skal vera sáttmáli þjóðarinnar við sjálfa sig. Hún þarf að innihalda skýrar grundvallarreglur og skerpa skilin milli löggjafar- og framkvæmdavalds. Þannig eigi ráðherrar ekki sæti á Alþingi og tillögurétti þeirra og málfrelsi á Alþingi verði settar skorður. Verulega þarf að efla eftirlitsþátt Alþingis og styrkja stöðu þess í stjórnkerfinu. Ennfremur er brýn nauðsyn á að endurskoða og skilgreina hlutverk forseta lýðveldisins.
Dómsvaldinu þarf að tryggja sjálfstæði og hlutverk þess þarf að skilgreina betur. Sjálfstæðið mætti meðal annars auka með því að breyta fyrirkomulagi á skipan dómara.

Hæstaréttardómarar yrðu t.d. valdir af Alþingi með auknum meirihluta, héraðsdómarar valdir af valnefnd og ráðning staðfest af Alþingi.

Að mínu mati verður tiltölulega auðvelt fyrir stjórnlagaþingið að ná lendingu í ofangreindum málum. Erfiðara mun líklega reynast að ná víðtæku samkomulagi um umhverfismálin og auðlindirnar. Sjálfur styð ég ný stjórnarskrárákvæði um auðlindirnar í þjóðareign, en forsenda sáttar um það mál hlýtur að vera samstaða um skilgreiningu á hugtökunum auðlind og þjóðareign. Örðugt getur það orðið, en engan veginn ómögulegt – með samstilltu átaki og góðum vilja. Sama má segja um hina mikilvægu þætti umhverfis- og náttúruvernd, sem okkur ber að hafa með í auðlindakaflanum.

Mannamál
Stjórnarskrá er í eðli sínu lagabálkur og mun verða það áfram. En að henni vil ég hafa inngang, eins konar yfirlýsingu þar sem andi stjórnarskrárinnar er settur fram með skýrum hætti og grunngildum er haldið til haga. Til að orða þennan inngang mætti fá fólk úr hópi okkar bestu rithöfunda og skálda og jafnvel fá það til að hafa hönd í bagga með ritun stjórnarskrártextans í heild sinni.

Stjórnarskráin skal vera aðgengilegt plagg á góðri íslensku; máli sem við skiljum öll. Þannig þrengist um möguleika lögspekinga landsins til að túlka stjórnarskrána út og suður.
Loks skal í stjórnarskránni að sjálfsögðu vera ákvæði um að íslenska sé þjóðtunga okkar og eina opinbera tungumál landsins, svo samofin sem hún er sögu okkar og menningu.

Eiríkur Mörk Valsson – 2974
Höfundur er frambjóðandi til stjórnlagaþings

Fyrri greinSelfyssingar stóðu sig vel
Næsta greinFlóamarkaður í Skálanum