Eggert Valur: Kraftmikinn leiðtoga í fyrsta sæti

Um næstu helgi gefst Samfylkingarfólki í Suðurkjördæmi færi á að velja forystu flokksins í kjördæminu á næsta kjörtímabili.

Björgvin G. Sigurðssson 1. þingmaður kjördæmisins sækist eftir umboði til þess að leiða öflugan lista jafnaðarmanna í kosningunum í vor. Björgvin hefur á undanförnum árum sýnt ótvíræða kosti góðs leiðtoga, hann gerir ekki mannamun og nýtur virðingar póltískra andstæðinga.

Því hef ég kynnst vel sem sveitarstjórnarmaður, kynni mín og samvinna við Björgvin eru með þeim hætti að ég get kinnroðalaust fullyrt að fjölmörg mikilvæg málefni hafa náð fram vegna hans aðkomu að málum. Nefna má aðkomu ríkisvaldsins að uppgjöri vegna erfiðar stöðu Gaddstaðarflata, áframhaldandi starfsemi Heilsugæslustöðvarinnar á Hellu sem búið var að ákveða að loka en vegna aðkomu Björgvins og fleiri þingmanna var þeirri ákvörðun snúið við.

Nokkur samgöngumál mætti nefna, uppbyggingu Landvegar,tvöföldun áfanga Suðurlandsvegar, útboðs á Hvítárbrú á sínum tíma og Gjábakkavegar, þá er ótalin barátta hans fyrir byggingu Hamars, verknámshúsi Fjölbrautaskóla Suðurlands .

Reynsla og styrkur
Af nýlegum málum má nefna uppbyggingu Þekkingarseturs á Klaustri og framlög til öryggisfangelsisins á Litla Hrauni, og mér er kunnugt um að hann er að vinna að því að fjárveitingar til löggæslunnar á Suðurlandi verði aukin.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Björgvin náð sér í viðamikla reynslu á vettvangi stjórnmálanna, hann gjörþekkir kjördæmið og þarfir þess. Hann hefur sýnt með verkum sínum að hann er traustsins verður og sýnir samstöðu með þeim hafa orðið undir í lífsbaráttunni hvar sem í flokki þeir standa.

Ég skora á alla þá sem hafa rétt til að kjósa í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi um næstu helgi að tryggja þessu öfluga kjördæmaþingmanni 1. sæti listans áfram.

Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Svf Árborg.