Eggert Valur: Framtíðarhlutverk Selfossflugvallar og möguleikar kennsluflugs

Eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu, er stefnan sú að allt kennsluflug verði lagt af á Reykjavíkurflugvelli frá og með næsta ári.

Bæjaryfirvöld í Árborg hafa að undanförnu verið í viðræðum við hagsmunaaðila um hvort raunhæft væri að flytja kennsluflugið á Selfossflugvöll.

Umræða um starfsemi kennsluflugs á Selfossflugvelli er ekki ný af nálinni, og hefur oft komið upp á undanförnum árum. Nú blasir sú staðreynd við að kennsluflugið er víkjandi í Reykjavík og því rétti tímapunkturinn núna að láta reyna á það til fulls að flytja það á Selfossflugvöll. Þegar hefur verið fundað með aðilum frá Flugklúbb Selfoss og Flugmálafélagi Íslands vegna málsins.

Niðurstaðan af þeim fundum er sú að framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, var falið að vinna drög að breytingum á orðalagi aðalskipulags varðandi aukna notkun Selfossflugvallar. Undirritaður fagnar því mjög að hreyfing er komið á málið, og fyrstu skrefin tekin í frekari uppbyggingu flugvallarins.

Hagkvæmni svæðisins
Það er mín skoðun að þegar rætt er um nauðsyn þess að koma upp nýrri aðstöðu fyrir æfinga og kennsluflug sé horft til þeirra mörgu möguleika sem Selfossflugvöllur hefur uppá að bjóða. Völlurinn er til að mynda með tveimur flugbrautum, sem eru 800 metrar að lengd og önnur brautin er með ágætum ljósabúnaði. Þá er lokið við að undirbyggja báðar flugbrautirnar fyrir bundið slitlag.

Svæðið býður einnig uppá nægt landrými fyrir flugskýli og önnur mannvirki sem fylgja myndi slíkri uppbyggingu. Ljóst er að kostnaður við nauðsynlega aðstöðusköpun yrði aðeins brot af þeim kostnaði ef ætti að koma upp nýrri aðstöðu fyrir æfinga og kennsluflug annars staðar. Það yrði kærkomin viðbót við atvinnulíf í sveitarfélaginu ef hér yrði öflug starfsemi flugskóla og flugkennslu.

Ef ekki tekst að finna kennsluflugvöll í nágrenni höfuðborgarinnar, sem sátt er um er hætta á því að flugnemar leiti í auknum mæli erlendis til flugnáms. Ljóst er að mikill missir væri fyrir Íslenskt flug að missa kennslu úr landi, þar sem hér eru oft á tíðum erfiðar aðstæður til flugs vegna veðurs. Því er mjög mikilvægt fyrir flugöryggi að flugmenn hafi bæði þjálfun og reynslu af flugi í því umhverfi sem þeir eiga eftir að vinna í til framtíðar.

Kennsluflug á Selfossflugvelli er mikið tækifæri til atvinnusköpunar á staðnum, auk þess að tryggja fluginu á Íslandi fyrsta flokks aðstöðu skammt frá höfuðborgarsvæðinu. Nú reynir á samstöðu allra sem að málinu koma, svo af þessu geti orðið.

Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar