Eggert Valur: Af miðbæjarmálum

Í vikunni var það staðfest af Þjóðskrá Íslands að tekist hefði að safna nógu mörgum undirskriftum kjörgengra einstaklinga búsettum í Sveitarfélaginu Árborg til þess að knýja fram íbúakosningu um uppbyggingu á miðbæjarreit Selfoss.

Gott er að halda því til haga þessu samhengi að síðastliðið haust lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögu á bæjarstjórnarfundi um að þetta stóra og umdeilda mál yrði sent til íbúana til afgreiðslu í almennri kosningu. Það er skemmst frá því að segja að tillagan var kolfelld af meirihlutanum og með stuðningi fulltrúa Framsóknarflokksins.

Ef hins vegar tillagan hefði verið samþykkt í haust hefði gefist nægur tími í vetur til þess að kynna málið rækilega fyrir íbúum og hægt hefði verið að kjósa um verkefnið samhliða sveitarstjórnarkosningum þann 26. maí nk, og með því fyrirkomulagi hefði fengist góð og marktæk þátttaka í stað þess að kjósa um málið í sérstakri kosningu eins og nú blasir við að verði gert.

Kraftmiklir íbúar
Talsmenn þessa verkefnis hafa látið hafa eftir sér að sú undirskriftarsöfnun sem um ræðir sé eingöngu til þess fallinn að tefja fyrir því, að hægt væri að hefja framkvæmdir. Það finnst mér vera sérstök rök í ljósi þess að mér sem kjörnum fulltrúa er ekki kunnugt um að Skipulagsstofnun hafi staðfest þær skipulagsbreytingar sem um ræðir. Á meðan sú staða er uppi er ekki hægt að gefa út framkvæmdaleyfi.

Ef tillaga Samfylkingarinnar hefði verið samþykkt á sínum tíma hefðu ekki nokkrir áhugasamir íbúar um lýðræðisumbætur og framtíð sveitarfélagsins síns þurft að þvinga fram leyfi hjá sitjandi meirihluta um að fá að segja sína skoðun í stóru skipulagsmáli sem hefur áhrif á alla íbúa til langrar framtíðar.

Það eitt að íbúum gefist kostur á að hafa áhrif á framtíðaruppbyggingingu í sveitarfélaginu sínu er auðvitað frábært, og sýnir svart á hvítu hvað samstaðan skiptir miklu máli þegar á reynir. Að mínum dómi hefur það fólk sem ábyrgt er fyrir þessari undirskriftarsöfnun unnið þrekvirki fyrir almenning í sveitarfélaginu. Það er mín skoðun að allir ættu að fagna þessari niðurstöðu ekki síst þeir aðilar sem hyggja á framkvæmdir, því hvað er betra enn að hafa einbeittan vilja íbúana á bak við sig þegar ráðist er í svo umfangsmiklar framkvæmdir?

Að sama skapi hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir þá bæjarfulltrúa, sem vissulega tala fyrir virku íbúalýðræði á góðum stundum en leyfðu sér þó að henda ágætri tillögu Samfylkingarinnar í haust út í hafsauga á hvaða vegferð þeir séu. Stundum hefur verið talað um að fólk ætti að éta hattinn sinn, það á vel við í þessu máli.

Eggert Valur Guðmundsson,
bæjarfulltrúi S-listans.

Fyrri greinÁrborg í úrslitaleikinn
Næsta greinTvö mörk snemma leiks dugðu ekki til