Efstu fimm hjá X-D: Við viljum vinna fyrir Suðurkjördæmi

Kæru íbúar í Suðurkjördæmi. Síðustu vikur hafa verið afar ánægjulegar og fróðlegar fyrir okkur frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Við höfum heimsótt fjölmarga vinnustaði, hitt fólk, haldið fundi og átt samtal við fleiri hundruð íbúa kjördæmisins. Við þökkum ykkur öllum fyrir hlýjar móttökur og skemmtilegar stundir síðustu vikur. Eftir ferðalög okkar um kjördæmið stendur upp úr að :

• Í Suðurkjördæmi verður til meiri hluti allrar þeirrar orku sem framleidd er á Íslandi, bæði í þágu atvinnulífs og heimilanna. Við eigum enn tækifæri til frekari orkuöflunar og getum þannig skapað grunn fyrir þúsundir vel launaðra starfa um allt kjördæmið.

• Suðurkjördæmi er stærsta fiskveiði- og fiskvinnslukjördæmið á landsbyggðinni. Við sköpum verðmæti og öflum útflutningstekna árlega upp á þúsundir milljóna króna fyrir þjóðina alla. Þar eru einnig gjöful landbúnaðarhéruð og miklir möguleikar til vaxtar hvort sem er í hefðbundnum greinum, garðyrkju eða í ýmis konar nýsköpun í landbúnaði.

• Í Suðurkjördæmi er ekki aðeins að finna fyrsta og síðasta viðkomustað allra ferðamanna sem koma til landsins heldur eru í kjördæminu allir vinsælustu ferðamannastaðir landsins, s.s. Gullni hringurinn, Þingvellir, Skógarfoss, Jökulsárlónið og Bláa Lónið… svo fátt eitt sé nefnt. Ferðaþjónusta aflar þjóðarbúinu milljarða króna í tekjur á ári hverju.

Við viljum að íbúar Suðurkjördæmis njóti afrakstur þessara gæða á sanngjarnan hátt og að kostir kjördæmisins verði um leið tækifæri íbúanna.

Við erum hópurinn sem er algjörlega einhuga um að virkja alla þessa kosti, í þágu heimilanna – í þágu atvinnulífsins – í þágu Suðurkjördæmis.

Við óskum eftir stuðningi þínum í kosningunum á laugardaginn.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Vilhjálmur Árnason, Geir Jón Þórisson

Fyrri grein„Umhverfisráðherra skuldar þjóðinni skýringar“
Næsta greinAxel Óli: Að kasta atkvæði sínu á glæ