Drögum lærdóm af ástandinu og horfum til framtíðar

Það má segja að árið 2022 hafi byrjað með hvelli og hafa síðustu vikur einkennst af covid ástandi og lægðum. En það er ótrúlegt að finna kraftinn í fólkinu þrátt fyrir að það sé fyrir löngu komið með nóg af ástandinu. Samstaðan, aðlögunarhæfnin, náungakærleikurinn, bjartsýnin og vonin er það sem kemur okkur í gegnum þetta. Ég er sannfærð um að það sé aldeilis farið að styttast í að þessi heimsfaraldur sleppi af okkur tökunum og að lífið fari í eðlilegra horf á ný.

Við getum samt sem áður dregið mikinn lærdóm af þessu ástandi sem hefur verið viðvarandi meira og minna í tvö ár. Við höfum tekist á við ýmsar áskoranir, þurft að þróast hratt, farið ótroðnar slóðir og nýtt okkur tæknina enn frekar. Sem dæmi má nefna að fólk hefur unnið og stundað nám í meira mæli heiman frá sér og hentar það fólki á landsbyggðinni einstaklega vel, þar sem það þarf oftar en ekki að ferðast langar vegalengdir til vinnu eða skóla.

Svoleiðis er staðan hjá mörgum í sveitarfélaginu mínu, Árborg, þar sem fólksfjölgun hefur verið einstaklega hröð síðastliðin ár en skortur er á atvinnu fyrir fólkið. Það þarf því að sækja vinnu til borgarinnar eða nærliggjandi sveitarfélaga. Það er ákveðin lífskjara skerðing og mikið púsluspil að þurfa að keyra langar vegalengdir á degi hverjum til þess að komast til og frá vinnu. Það er gott að búa hérna og ala upp börn en fólk hefur staðið frammi fyrir því að þurfa að flytja á brott þar sem það fær ekki atvinnu í heimabyggð.

Við viljum alls ekki missa mannauðinn í sveitarfélaginu frá okkur því í honum felst krafturinn, þekkingin og tækifærin, tækifæri til uppbyggingar og framdráttar. Í ljósi þess er mikilvægt að setja atvinnumál í forgang, halda áfram þeirri vinnu sem hafin er varðandi störf án staðsetningar og gera sveitarfélagið eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki, bæði stór og smá. Ég hef fulla trú á að það muni takast þar sem höfuðstöðvar Suðurlands eru í Árborg, hér er opið í allar áttir, hér er öflug þjónusta og mikill mannauður. Hér eru bjartir tímar framundan.

Díana Lind Sigurjónsdóttir
Leikskólakennari og íbúi í Árborg

Fyrri greinPróflaus reyndi að blekkja lögreglu
Næsta grein64 HSK met sett á síðasta ári