Dr. Benedikt: Erlendir sumarstúdentar við jarðskjálfta-miðstöðina

Við Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði sem staðsett er á Selfossi fer fram afar fjölbreytt starf sem tengist eðli og áhrifum sterkra jarðskjálfta á hið manngerða umhverfi, samfélagið og fólkið.

Starfsmenn vinna að rannsóknum, ráðgjöf, kennslu og leiðbeiningu nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi. Burðarásinn í starfseminni eru þó mælakerfin sem eru einkum á skjálftabeltum Suðurlands og Norðurlands, en einnig í helstu byggðakjörnum og virkjunum á jarðskjálftasvæðum. Þau skapa ómetanleg gögn sem nýtast í allri starfsemi Jarðskjálftamiðstöðvarinnar.

Starfsmenn Miðstöðvarinnar finna fyrir miklum áhuga erlendis frá og á hverju ári berast fjöldi beiðna frá erlendum nemendum um að komast í framhaldsnám eða starfsnám við Jarðskjálftamiðstöðina. Ástæðan er einkum þríþætt, í fyrsta lagi er Miðstöðin og starfsmenn hennar þekktir erlendis fyrir rannsóknir sínar sem birtar eru í sérhæfðum erlendum vísindatímaritum og einnig á helstu ráðstefnum í faginu. Í öðru lagi hafa nemendur í alþjóðlegum sumarnámskeiðum Jarðskjálftamiðstöðvarinnar og Háskólafélags Suðurlands, sem haldin hafa verið síðan 2011 og gengið afar vel, verið ötulir við að segja samnemendum sínum og kennurum í heimaskólum sínum frá reynslu sinni þegar heim er komið. Í þriðja lagi er ástæðan ekki síst það aðdráttarafl sem Ísland hefur erlendis, og þá sérstaklega hjá þeim sem eru í námi eða sinna rannsóknum á hvers kyns náttúruvá og áhrifum hennar, hvort sem um er að ræða sterka jarðskjálfta, eldgos, flóð eða storma, svo dæmi séu tekin.

Einstaklingar og stofnanir á Suðurlandi hafa frá upphafi stutt dyggilega við bakið á starfsemi Jarðskjálftamiðstöðvarinnar og verður sá stuðningur seint fullþakkaður. Nýleg dæmi má nefna stuðning Sambands sunnlennskra sveitarfélaga við sumarnámskeið í jarðskjálftaverkfræði, og stuðning Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði (HNLFÍ) við sumarstúdenta í starfsnámi í sumar. Starfsnám erlendra stúdenta er nýjung í starfsemi og rannsóknum við Miðstöðina og í sumar var þremur frönskum afburðanemum í meistaranámi í jarðvísindum og verkfræði við EOST háskólann í Frakklandi boðið upp á slíkt starfsnám. Þeir fengu rannsóknaraðstöðu við Jarðskjálftamiðstöðina en HNLFÍ bauð þeim upp á gistingu á meðan dvöl þeirra stóð. Verkefnið sem nemendurnir unnu var frumgreining á gagnasafni sem mældist í Hveragerði í þeirri miklu hrinu eftirskjálfta sem reið yfir eftir jarðskjálftann í Ölfusi 29. maí 2008. Frumniðurstöður sýna að mælanetið í Hveragerði sem nefnist ICEARRAY I mældi yfir 1700 jarðskjálfta á mánuðunum eftir Suðurlandsskjálftann, sem er uþb. 1000 fleiri skjálftar en fyrst var vitað um. Auk þess mældist hver jarðskjálfti á fjölda mæla sem dreifðir eru um Hveragerði. Þetta er því langstærsta gagnasafn sem mælst hefur í kjölfar sterks jarðskjálfta á Íslandi og er efni í fjölda rannsókna sem henta doktorsnemum sérstaklega vel, bæði í jarðvísindum og í verkfræði. Stuðningur SASS og HNLFÍ í sumar gerði þessa auknu starfsemi í kennslu og rannsóknum á Suðurlandi mögulega.

Það er stefna Jarðskjálftamiðstöðvarinnar í samstarfi við Háskólafélag Suðurlands að efla uppbyggingu rannsóknatengds framhaldsnáms á Suðurlandi með því að bjóða upp á alþjóðlegt fjölfaglegt meistara- og doktorsnám á sviði verkfræði og áhættustjórnunar með áherslu á áhættugreiningu forvarna og viðbúnaðar vegna náttúruhamfara í byggð af völdum jarðskjálfta og eldgosa. Búast má við því að margfeldisáhrif samþættingar slíks náms við grunnrannsóknir sem eru stundaðar við Jarðskjálftamiðstöðina verði afar mikið. Mikilvægi grunnrannsókna verður seint metið að fullu en þær eru þess eðlis að niðurstöðurnar nýtast fyrst og fremst í framtíðinni. Þær eru þó mikilvægur þáttur í þjálfun nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi, og þar með uppbyggingu mannauðs. Stuðningur nærumhverfis Jarðskjálftamiðstöðvarinnar er forsenda slíkrar uppbyggingar.

Dr. Benedikt Halldórsson, rannsóknardósent við Jarðskjálftamiðstöðina

Fyrri greinSindri fékk viðurkenningu fyrir gott æskulýðsstarf
Næsta greinAðveituæð í Ölfusinu rifin