Dóra Eyvindar: Bókasafnið er menningarmiðstöð

Haustfundur almenningsbókasafna var haldinn síðustu helgina í september í Bókasafni Mosfellsbæjar.

Á undan fundinum var haldið opið málþing með sveitastjórnarmönnum. Það var gott og skemmtilegt að heyra hlýjan hug sveitastjórnarmanna til safnanna.

Bókasöfnin eru stærstu menningarmiðstöðvar í flestum sveitarfélögum. Fleiri sækja Borgarbókasafnið heim en Hörpuna t.d.og í mörgum minni samfélögum eru bókasöfnin eini menningarstaðurinn.

Almenningsbókasöfnin hafa einstakan sess í samfélaginu sem „þriðji staðurinn“ þ.e. staður milli heimilis og vinnu. Þar er hægt að koma og vera, glugga í bækur, blöð og tímarit. Hitta fólk og spjalla eða ekki. Þau eru eini staðurinn þar sem hægt er að koma án þessa að borga sig inn eða kaupa nokkurn skapaðan hlut. Lýðræðislegt hlutverk þeirra verður aldrei nógu vel undirstrikað. Þar hefur hver sem er aðgang að þekkingu til að skapa sér skoðanir án íhlutunar.

Söfnin hafa mismunandi hlutverk eftir þörfum hvers byggðarlags og hefðum sem hafa skapast. Það er áberandi í Reykjavík hversu mikil nýbúaþjónusta er þar. Í dreifðari byggðum hafa söfnin tekið að sér að vera með ýmis eyðublöð fyrir bæjarfélagið selja strætómiða og þess háttar. Sumstaðar eru upplýsingaþjónustur fyrir ferðamenn reknar á bókasöfnunum og vel má hugsa sér frekari upplýsingaþjónustu fyrir sveitarfélögin á söfnunum.

Ýmsir menningarviðburðir fara nú fram á söfnunum og rætt hefur verið um að skapa frumkvöðlum aðstöðu í þeim söfnum sem búa vel að vinnu-og fundaraðstöðu.

En fyrst og fremst eiga söfnin að vera athvarf og uppáhaldsstaður sem flestra þar sem gott er að koma og slaka á í erli dagsins.

Það að vera vel læs skiptir máli, það að vera virkur samfélagsþegn skiptir líka máli. Til að tryggja öllum þá möguleika leggur samfélagið sjálfu sér til bókasafn, svo er bara að mæta og njóta.

Við hlökkum til að sjá ykkur.

Heiðrún Dóra Eyvindardóttir,
forstöðumaður Bókasafns Árborgar

Fyrri greinHeiðraði minningu Bobby Fischer
Næsta greinLeikfélag Selfoss æfir Maríusögur