Dásamlegur aðalfundur — Látum verkin tala!

Undirituð stjórnaði aðalfundi Stjórnarskrárfélagsins 17. desember síðastliðinn. Þar var eftirfarandi ályktun samþykkt einróma af fundargestum:

• Það er fagnaðarefni fyrir þjóðina að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ætlar að ráðast í stjórnarskrárbreytingar.

• Landsmenn búa við hættulega óskýra og úrelta stjórnarskrá. Við því dugar enginn bútasaumur.

• Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar fór fram eftir bankahrunið 2008 þegar þjóðin samdi sér nútímalega stjórnarskrá sem stendur traustum fótum í stjórnskipunarhefð Íslands eins og hún birtist í stjórnarskránni frá árinu 1944.

• Nýja stjórnarskráin hlaut yfirgnæfandi stuðning kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu (67%) sem Alþingi boðaði til 20. október 2012.

• Alþingi hefur ekki enn virt úrslit atkvæðagreiðslunnar. Það er svartur blettur á þjóðþingi Íslendinga sem er tímabært að afmá.

• Nú er lag að taka tillögurnar sem samþykktar voru sem grundvöllur nýrrar stjórnarskrár og afgreiða þær af heilindum og virðingu við kjósendur og úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

• Í tilmælum til íslenskra stjórnvalda frá Feneyjanefnd Evrópuráðsins árið 2020 er útlistað hvað í því felst. Þar segir, að yrði vikið efnislega frá því sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 þyrftu stjórnvöld að gefa almenningi gegnsæjar, skýrar og sannfærandi ástæður fyrir því.

• Virðing við grundvallarreglur lýðræðis og víðtæk sátt meðal almennings er það sem skiptir máli. Ósætti um stjórnarskrárbreytingar milli stjórnmálaflokka á Alþingi má ekki standa í vegi fyrir brýnum hagsmunum og lýðræðislegum vilja almennings. Þannig hafa nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá einmitt náð fram að ganga.

• Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur og Alþingi standa frammi fyrir sögulegu tækifæri.

• Stjórnvöld geta strax hafist handa og þjóðin fengið sína nýju og endurskoðuðu stjórnarskrá þegar haldið verður upp á ellefuhundruð ára afmæli Alþingis árið 2030.

Katrín Oddsdóttir
Lögmaður og stjórnarmaður í Stjórnarskrárfélaginu

Fyrri grein45 sunnlenskar fjölskyldur fá matarúttekt frá Krónunni
Næsta greinNorconsult-Ísland opnar nýja skrifstofu á Selfossi