Bókun í bæjarráði undir fundargerð Fræðslunefndar

Undirritaðir furða sig á bókun sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fræðslunefnd Sveitarfélagsins Árborgar lögðu fram á 29. fundi nefndarinnar þann 27. janúar síðastliðinn, þar lýsa fulltrúarnir yfir þungum áhyggjum af þeirri „stöðu sem upp er komin í skólamálum sveitarfélagsins“, stöðu sem alfarið er á ábyrgð flokksfélaga þeirra frá síðasta kjörtímabili, sem hófu undirbúning að byggingu nýs skóla í Björkurstykki að minnsta kosti tveimur árum of seint.

Þessum fulltrúum í fræðslunefnd má einnig vera ljóst að bæjaryfirvöld hafa verið að vinna að uppbyggingu nýs skóla í Björkurstykki, Stekkjaskóla, sleitulaust frá því á vordögum 2018. Til upplýsingar má nefna að á fyrsta fundi bæjarráðs á kjörtímabilinu, þann 21. júní 2018, skipaði bæjarráð nýja byggingarnefnd skólans. Fjórum vikum síðar eða á 4. fundi bæjarráðs þann 19. júlí baðst svo oddviti Sjálfstæðisflokksins, undan merkjum að taka þátt í vinnunni fram undan og lýsti þar með yfir fullkomnu áhuga- og ábyrgðarleysi í garð verkefnisins. Áhuga- og ábyrgðarleysi í að taka þátt í þeirri vinnu, að leysa úr langstærstu fjárfestingaskuldinni sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig við lok síðasta kjörtímabils. Á fyrsta fundi fræðslunefndar þann 16. ágúst 2018 var svo til kynningar á fundinum ný skipun byggingarnefndar þar sem tilkynnt var um að oddviti Sjálfstæðisflokksins hafði sagt sig frá verkefninu. Fyrsti fundur byggingarnefndar skólans var svo haldinn eftir sumarleyfi starfsmanna þann 20. ágúst 2018.

Þegar ný byggingarnefnd hóf störf, blasti við henni að vinna átti eftir sjö af átta verkþáttum verkefnisins. Einungis einum verkþætti af átta hafði verið lokið í tíð fyrri meirihluta. Hugmyndavinnu var lokið en eftir var gerð kröfulýsingar og þarfagreiningar, forsagnar, að bjóða út hönnun, að ljúka frumhönnun og fullnaðarhönnun, að bjóða út framkvæmdina og framkvæma verkið. Af þessu má sjá að eftir voru sjö verkþættir sem tekur um þrjú til fjögur ár að ljúka, ef mið er tekið af tímalínu framkvæmda grunnskóla af svipaðri stærðargráðu á landinu. Nú eftir tveggja og hálfs árs þrotlausa vinnu starfsmanna og byggingarnefndar þá hyllir undir að fyrsti hluti nýbyggingar Stekkjaskóla verði tekinn í gagnið í ágúst 2022, sem verður að teljast vel af sér vikið!

Einnig vekur furðu að í fyrrnefndri bókun sinni vísa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fræðslunefnd að upplýsingar vegna nýs skóla í Björkurstykki komi frá öðrum en skólayfirvöldum, en upplýsa þó ekki í bókun sinni hvaðan meintar upplýsingar til foreldra séu komnar. Eru þær upplýsingar kannski frá þeim sjálfum komnar eða flokksfélögum þeirra? Hafa ber í huga að um svipað leyti og þessi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fræðslunefnd var birt, var sent út ítarlegt bréf frá sviðsstjóra fjölskyldusviðs um hvernig staðið yrði að stofnun og rekstri skólans fyrsta skólaveturinn í nýjum rúmgóðum, færanlegum kennslueiningum, líkt og tíðkast hefur í stærri sveitarfélögum á Suð-vestur horninu á undanförnum árum, þegar að nýjar skólabyggingar eru í undirbúningi og framkvæmd.

Gera verður þær kröfur til fulltrúa í fræðslunefnd að þeir séu meðvitaðir um þá vinnu sem átt hefur sér stað á kjörtímabilinu en svo virðist ekki vera samkvæmt bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á þessum fundi. Vert er að vekja athygli á því að allar fundargerðir vinnuhópa um uppbyggingu nýs skóla í Björkurstykki koma einmitt til umfjöllunar í fræðslunefnd, og því með ólíkindum að leggja fram bókun með þessum hætti og gera í leiðinni lítið úr störfum starfsmanna sveitarfélagsins sem hafa lagt hart að sér við stofnun og undirbúning nýs grunnskóla í sveitarfélaginu.

Það er von okkar að þau neikvæðu viðhorf sem birtast í þessari bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fræðslunefnd endurspegli ekki viðhorf fulltrúa Sjálfstæðisflokksins almennt í bæjarstjórn og öðrum nefndum sveitarfélagsins. Það er afar flókið og krefjandi verkefni að koma nýjum skóla á laggirnar. Það er því algert lykilatriði að bæjaryfirvöld sýni samstöðu og styðji við uppbygginguna með ráðum og dáð þannig að sem best megi takast til, börnunum okkar til hagsbóta.

Eggert Valur Guðmundsson S-lista
Tómas Ellert Tómasson M-lista

Fyrri greinÍslenskur landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður árið 2040
Næsta grein„Gefur félaginu byr undir báða vængi“