Björgvin G: Vetrarverkin og framtíð fangelsismála

Fjöldi áríðandi verkefna bíður okkar þingmanna Suðurkjördæmis í vetur.

Á næstu dögum verður fyrsti áfangi tvöföldunar Suðurlandsvegar tekinn í notkun. Um 7 kílómetra kafli er tilbúinn og mikilvægt að bjóða út næsta áfanga sem fyrst. Þá verður Suðurstrandavegur vígður á næstunni. Opnast þá ný leið með Suðurströndinni sem getur skilað miklum ábata. Bæði hvað varðar ferðaþjónustu og samruna stórra atvinnusvæða.

Þessir mikilsverður áfangar í samgöngumálum bætast við þau tímamót sem felast í nýrri brú yfir Hvíta, nýjum Gjábakkavegi og Landeyjahöfn. Á fáeinum árum hafa því mörg af helstu baráttumálum okkar Sunnlendinga í samgöngumálum gengið eftir og mun það án efa skila sér í öflugra atvinnulífi og auknu öryggi í umferðinni til framtíðar.

Hamar og sátt um Litla-Hraun
Af öðrum stórum verkefnum má m.a. nefna að tryggja að Hamar, nýtt verknámshús FSu, fái fyrsta framlagið á fjárlögum. Þá er hægt að hefja undirbúning og hönnun byggingarinnar sem mun styrkja enn þá máttugu menntastofnun sem skólinn er og við öllum blasti nú á 30 ára afmæli hans á dögunum.

Sveitarfélögin hafa af hyggindum safnað sínum hluta í sjóð og eru þeir fjármunir til reiðu. Nú er ríkisins að koma með sitt framlag þannig að hægt sé að hefjast handa.

Framtíð Litla Hrauns er stórt mál sem snertir marga fleti í fjórðungnum okkar. Nýleg áætlun innanríkisráðherra um að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiði kom sem þruma úr heiðskíru lofti inn í þá sátt sem til staðar er um að byggja nýja álmu öryggisfangelsis hér eystra en að endurnýja gæsluvarðahaldsrými á Reykjavíkursvæðinu. Líkt og fjárlög gera ráð fyrir. Því er uppi ágreiningur um framtíðarskipan mála, þó ráðherra fullyrði reyndar að áfram verði byggt við Litla-Hraun.

Sáttin í málinu er sú að mínu mati að fram verði lögð áætlun sem skuldbindi ríkið til að byggja nýja öryggisálmu við Litla-Hraun samtímis nýju rými fyrir komu-og öryggisfangelsi í Reykjavík.

Mun ég sem nýkjörinn formaður Allsherja- og menntamálanefndar Alþingis beita mér fyrir að slík sátt verði gerð. Við þingmenn Suðurkjördæmis munum aldrei una öðru en því að fyrir liggi ákvörðun um framtíðaruppbyggingu við þá rótgrónu og vel reknu fangelsisstofnun sem hér er til staðar.

Nýting orkunnar í héraði
Hvað varðar atvinnumálin skiptir framkomin rammaáætlun um nýtingu og vernd virkjanakosta miklu máli. Nú ræðst hvað verður virkjað og hvað verndað. Alþingi mun að líkum ljúka málinu fyrir áramót og þá er hægt að ráðast í útboð á tilteknum virkjunum.
Krafa okkar á afdráttarlaust að vera sú að skilgreindur hluti orkunnar verði nýttur á Suðurlandi. M.a. með byggingu stórskipahafnar í Þorlákshöfn samhliða orkunýtingunni.

Þetta er grundvallaratriði hvað varðar uppbyggingu á fjölbreyttum og vel launuðum störfum sem hvíla á úrvinnslu og nýtingu orkunnar. Gangi það eftir mun sunnlenskt atvinnulíf taka miklum og jákvæðum breytingum á næstu árum.

Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis og formaður allsherja- og menntamálanendar Alþingis.

Fyrri greinArndís Soffía fer yfir Guðmundar- og Geirfinnsmálin
Næsta greinMenningar-mánuðurinn settur í Gimli