Björgvin G: Verknámshús FSu og menntun fanga á fjárlög

Í gær samþykkti Alþingi eftir 2. umræðu fjárlaga fyrsta framlag af þremur til Hamars, nýs verknámshúss Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Í framhaldinu verður undirritaður samningur um verkið allt. Fyrsta framlagið á fjárlögum er 25 mkr. Þá fær Hamar 275 mkr árið 2013 og lokagreiðsluna árið eftir að upphæð 90 mkr. Þar með er langþráð verkefni komið á framkvæmdastig með endanlegri ákvörðun á Alþingi. Fyrir voru sveitarfélögin búin að safna 140 mkr í sjóð með þessari ákvörðun meirhluta Alþingis er hægt að losa og koma í not við undirbúning og hönnun Hamars.

Þessi fögnum við þingmenn kjördæmisins. Þar með batna forsendur til þess að efla starfsnám og verknám við FSu verulega. Nú fer þetta mikilvæga verkefni af stað sem margir hafa lagt mikið á sig við að gangi fram. Sveitarstjórnarmenn, þingmenn og starfsmenn og stjórnendur FSu. Þakka ég þeim öllum samstarfið og óska til hamingju með áfangann.

Annað mál sem tengist menntun og starfi FSu var einnig afgreitt í gær á þinginu. Þá var framlag til náms fanga á Bitru og Litla Hrauni hækkað um 5 mkr. Þar með hækkar heildarframlag ríkisins til menntunar fanga upp í tæpar 30 mkr sem er sama upphæð og árið áður. Þetta er mikilvæg viðbót enda hefur skólinn þróað gott og árangursríkt nám í fangelsinu.

Auk þess var samþykkt aukaframlag til meðferðargangsins á Litla Hrauni um 7 mkr. Það kemur til viðbótar við reglulegt framlag til meðferðarstarfs á Litla Hrauni og gerir fangelsinu kleift að þróa þetta vel heppnaða úrræði áfram. Enda undirstaða betrunar að meðferð frá fíkniefnum og áfengi hafi farið fram áður og meðfram.

Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherja- og menntamálanefndar Alþingis.