Björgvin G.: Verk að vinna – í kjölfar kjördæmaviku

Fyrir nokkru lukum við þingmenn Suðurkjördæmis árlegri yfirferð yfir kjördæmið okkar víðfema.

Ferðin var gagnleg að vanda enda fundað með fulltrúum allra sveitarstjórna í kjördæminu. Byrjuðum á Hornafirði og enduðum rúmlega viku síðar í Vestmannaeyjum. Þannig á sér stað mikilvægt upplýsingaflæði og stillum við saman strengi í stærstu málunum sveitarstjórnarmenn og þingmenn.

Þá áttum við fundi með Heilbrigðisstofnunum Suðurlands, Suðurnesja og Vestmannaeyja. Auk funda með starfsmönnum Sogns og áhugafólki um bættar samgöngur til Vestmannaeyja. Þá hittum við fulltrúa frá sunnlenskum skógarbændum og síðar sama dag var fundað með Eimskip og fleirum vegna áforma um nýja ferju á milli lands og Eyja.

Lokafundurinn í lotunni verður í næstu viku með Vegagerðinni. Þar verður rætt um framhald breikkunar Suðurlandsvegar, nýjan Herjólf, lýsingu Reykjanesbrautar, veginn um Reynisfjall og Hornafjarðarfljót. Svo fátt eitt sé nefnt.

Einnig fundaði þingmannahópurinn sérstaklega með innanríkisráðherra um vanda samfélagsins austan Markarfljóts. Sérstaklega í Vestur-Skaftafellssýslu en þar hefur fólki fækkað hratt. Því hafa tekjur sveitarfélaganna tveggja dregist saman og mikill vandi blasir við. Langtímalausnin er klárlega sú að efla tekjustofna þeirra með nýjum atvinnutækifærum. Þau stærstu felast í orkunýtingu í tengslum við Búlandsvirkjun og Atleyjarvirkjun en ekki síður í Þekkingarsetrinu á Klaustri og aukinni ferðaþjónustu almennt.

Suðurstrandarvegur er samgöngubylting
Undir lok yfirferðarinnar náðist sá mikli áfangi að Suðurstrandarvegur var tekinn í gagnið. Bylting í samgöngumálum var haft á orði á þingmannafundinum í Grindavík og er ekki ofmælt. Með tilkomu hans opnast bein tenging á milli Suðurlands og Suðurnesja. Ferðaþjónusta, atvinnulíf og mannlíf allt mun verða fyrir miklum og jákvæðum áhrifum af þessari samgöngubyltingu sem Suðurstrandarvegur er.

Með tilkomu Suðurstandarvegar er enn ein stór samgöngubót í kjördæminu komin til notkunar á rúmu ári. Að meðtöldum lokaáfanga tvöföldunar Reykjanesbrautar er þetta fjárfesting upp á annan tug milljarða króna. Mikil fjárfesting sem skilar sér hratt til baka í bættu umferðaröryggi og greiðari leiðum á milli svæða.

Hin stóru verkefnin eru Landeyjahöfn, tvöföldun á Suðurlandsvegi, Suðurstrandarvegur, Gjábakkavegur og brú yfir Hvítá við Bræðratungu. Stórar framkvæmdir sem styrkja stórum allt mannlíf á svæðinu og bera með sér ómæld tækifæri í ferðaþjónustu. Verkefnin eru auðvitað óþrjótandi og næstu stórmál í samgöngumálum eru m.a. næsti áfangi tvöföldunar á Suðurlandsvegi, nýr Herjólfur og vegur og brú yfir Hornafjarðarfljót. Nýr Herjólfur skiptir sköpum til að Landeyjahöfnin nýtist sem skildi og áríðandi að hönnun og útboð ferjunnar fari strax af stað.

Hamar og verknámið
Af öðrum mikilvægum málum sem bar hátt á fundunum má nefna Hamar, nýtt verknámshús við Fsu. Um það er mikil samstaða í héraði og röðuðu sveitarfélögin í SASS því í forgang í 20/20 áætluninni. Nú er verið að vinna að því að verknámshúsið fái fyrsta framlag af þremur í fjárlögum ársins 2012. Þá hefst hönnun Hamars og sveitarfélögin geta nýtt þær 140 mkr. sem þau hafa af hyggindum safnað í sjóð til verksins. Með Hamri verður auk þess stigið stórt skref til eflingar verknáms sem er eitt stærsta verkefni okkar í menntamálum.

Rót langtíma atvinnuleysis liggur í lágu menntunarstigi. Um 80% atvinnulausra eru með styttri formlega skólagöngu en framhaldsskólapróf. Til að vinna gegn brottfallinu skiptir sú ákvörðun stjórnvalda miklu að allir 25 ára og yngri sem um sækja fá vist í framhaldsskóla og ekki síður að fjárfesta í eflingu verknáms. Til dæmis með nýju verknámshúsi við FSu.

Orkunýting og atvinnumál
Miklir möguleikar eru framundan í orkunýtingu og atvinnuuppbyggingu víða um kjördæmið. Þrír fjárfestingarsamningar hafa verið gerðir við ríkið um verkefni í orkunýtingu á Suðurnesjum enda þörfin á auknum atvinnutækifærum hvergi meiri en þar. Hátt í þúsund störf hurfu með hernum og mikilvægt að öll þessi þrjú fjölbreyttu verkefni verði að veruleika með þeim hundruðum nýrra starfa sem þeim fylgja.

Verkefnin eru álver í Helguvík, kísilver í Helguvík og gagnaver á Ásbrú. Á sama tíma held ég að einn slíkur samningur hafi verið gerður á landinu öllu sem undirstrikar þungann í miklvægi þess að ná upp atvinnustiginu á svæðinu.

Þá var ánægjulegt að takast skyldi að afla Keili tugmiljóna aukaframlagi á fjáraukalögum fyrir þetta ár. Ber að þakka menntamálaráðherra og þingmönnum úr kjördæminu það samhenta átak sem skilaði þessari framsæknu menntastofnun auknu fé.

Gagnaverið er farið af stað, kísilverksmiðjan fer af stað fyrir áramót og skapar yfir 200 störf á byggingartíma og enn er beðið gerðardóms vegna álversins. Hans er að vænta í lok nóvember og vonandi verður hann nógu skýr til að framkvæmdir við álverið fari á fullan skrið að nýju. Þá hlýtur Landsvirkjun að koma að orkuöflun til þess auk HS orku og OR. Aðkoma þess að álverinu er ein af forsendum þess að það verði að veruleika. Þó að HS verði að standa við sín fyrirheit sem meginstoð orkusölu til Norðuráls.

Mikið var rætt um orkunýtingu á Suðurlandi sem framleiðir tæp 80% orkunnar í landinu en nýtir rétt um 4%. Þetta er afleit staða og okkur ber að snúa við með því að skilyrða að tiltekið hlutfall orkuframleiðslunnar verði nýtt á svæðinu. Því fylgir uppbygging stórskipahafnar í Þorlákshöfn samhliða orkunýtingunni.

Sogn og Litla Hraun
Eitt mál sem allir voru sammála um er framtíð Litla Hrauns. Þingmenn og sveitarstjórnarmenn leggjast eindregið gegn því að byggt verði nýtt öryggisfangelsi á Hólmsheiðinni. Þess í stað verði byggð öryggisálma við Litla Hraun og hæfilegt gæsluvarðarhaldsrými á höfuðborgarsvæðinu. Líkt og fjárlög ársins 2011 gera ráð fyrir.

Þá var ákvörðun Landspítalans um að færa réttargeðdeildina á Sogni á Klepp mikil vonbrigði. Illa var staðið að henni gagnvart starfsfólki og samfélaginu sem hefur staðið vel að rekstri Sogns. Þá eru ekki skýr faglegu rökin fyrir ákvöruninni þar sem reynslan af rekstri Sogns er góð. Best væri að fresta ákvörðuninni og fara betur í kosti og galla staðsetningar deildarinnar. Um leið þarf að ákveða aðra nýtingu á Sogni gangi flutningurinn eftir. Til dæmis sem betrun fyrir ungmenni eða konur. Sú ákvörðun á að liggja fyrir áður en farið verður í flutning að mínu mati.

Þakka ég þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum einkar árangursríka lotu sem ég er viss um að skilar okkur áfram í samstilltu átaki til eflingar á svæðinu öllu.

Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis.

Fyrri greinÍ þriggja mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot
Næsta greinVinningshafar í happdrætti Menningar-veitunnar