Björgvin G.: Verðmætin í velferðinni

Mestu verðmætin í íslensku samfélagi er sú velferðarþjónusta sem við höfum byggt upp í landinu síðustu öldina eða svo.

Með velferðarþjónustu á ég við aðgang, óháð efnahag, að heilbrigðisþjónustu, menntun á öllum stigum, félagsþjónustu sem tryggir mannsæmandi framfærslu og öfluga löggæslu.

Í harðæri síðustu ára hefur ekki verið svigrúm til að bæta í og efla velferðina neitt í líkingu við það sem hugur jafnaðarmanns í stjórnmálum stendur til en það var forgangsraðað í þágu hennar á öllum stigum. Félagsleg sjónarmið og velferðarþjónusta óháð því hvert efnalegt hlutskipti okkar er að öðru leyti eru grundvallaratriði í samfélagi samhjálpar og félagshyggju. Um þau eigum við að standa vörð og hefja umbætur og fjárfestingar í velferðinni nú þegar hagur hins opinbera vænkast á ný.

Mörg mál sem tengjast grunnþjónustu í hverju héraði landsins koma til kasta Alþingis við fjárlagagerð hvers árs. Auðvitað er ekki hægt að verða við öllu þegar fjármunir eru af skornum skammti og þá kemur til kasta forgangsröðunar í þágu þess sem mikilvægast er hverju sinni til að byggja upp og verja velferðina. Mörg slík mætti nefna, stór og smá, en staldra ég hér við tvö þeirra sem til kasta okkur komu nú í haust.

Endurnýjun spítalasviðs HSu
Við lokagerð fjárlaga fyrir árið 2013 tókst með samstilltu átaki að fá ríkissjóð til þess að leggja 100 mkr. til 1. áfanga endurnýjunar spítalasviðs Heilbrigðsstofnunar Suðurlands. Þar með er tryggð fjármögnun á þeim áfanga og hægt að hefjast handa við verkið.

Mótframlag frá Fasteignum ríkisins og af fjármunum Velferðarráðuneytisins tryggja að nægir fjármunir eru til staðar og í húsi til þess að fara af stað. Þetta var einkar ánægjuleg niðurstaða. Um tíma var fjármögnun áfangans í uppnámi en nú er hún tryggð.

Ljóst var þegar leið á haustið að eina leiðin til þess að tryggja fjármuni til verksins var að fá fjármagn á fjárlögum og frá Fasteignum ríkisins. Fjármagn frá Fasteignum sem hugsað er til endurbóta á húsnæði í eigu ríkisins.

Þetta tókst og við ég þakka forsvarsfólki Hsu fyrir árverknina í málinu. Einnig félögum mínum í fjárlaganefnd og velferðar- og fjármálaráðherrum. Án mikils velvilja Katrínar Júlíusdóttur fjármálaráðherra hefði ekki tekist að landa málinu á þeim fáu dögum sem til stefnu voru. Hún beitti sér af mikilli festu fyrir aðkomu Fasteigna ríkisins og fyrir ákvörðun um að bæta 100 mkr. inn á fjárlög fyrir þriðju umræðu.

Heildaverkið er upp á liðlega 1,3 milljarð króna og mun skila okkur miklum og tímabærum umbótum á heilbrigðisstofnuninni. Nú þegar heilsugæsluhlutinn hefur verið endurbyggður og endurnýjun spítalasviðsins fer af stað sér fyrir endann á uppbyggingu þess hornsteins í velferðarþjónustu héraðsins sem stofnunin sannarlega er.

Óskipt fé til löggæslunnar
Í haust áttum við þingmenn Suðurkjördæmis fund með sýslumanninum í Árnessýslu og nokkrum lögreglumönnum úr liði hans. Þar skýrðu þeir fyrir okkur að fengist ekki fé til þess að mæta uppsöfnuðum halla embættisins þyrfti að segja upp starfsmönnum. Nú þegar má fullyrða að fjöldi þeirra sé ekki nægjanlegur. Því er mikið undir að tryggja fjármagn til að mæta hallanum og koma í veg fyrir uppsagnir.

Þessi staða er auðvitað uppi hjá fleiri lögregluembættum. Því var hart sótt í fjárlagagerðinni að innanríkisráðherra fengi pott óskiptra fjármuna til þess að úthluta löggæslunni úti á landi þar sem vandinn er mestur til að koma í veg fyrir uppsagnir og frekari fækkun í liðum lögreglunnar á landsbyggð.

Alþingi samþykkti óskiptan pott 200 mkr. og nú fer útdeiling fjárins fram. Vonir standa til að með þessum fjármunum megi mæta vandanum vegna uppsafnaðs halla og koma í veg fyrir frekar fækkun í fámennum liðum lögreglunnar á landsbyggðinni. Við þingmenn munum fylgjast vel með útdeilingu fjárins og að tilgangi þess sé náð.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Fyrri greinML keppir í kvöld
Næsta greinEkið á bíl við Sundhöllina