Björgvin G: Verðtryggingarbrella eða varanleg lausn

Gott var að fá skýrslu nefndar forsætisráðherra um boðað „afnám“ verðtryggingarinnar.

Vísitölubinding lána og lífeyris hefur verið viðhöfð síðan Ólafur Jóhannesson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, leiddi lög þess efnis í gegnum þingið. „Ólafslögin“ um verðtryggingu. Þá sett sem hálfgerð neyðarráðstöfun þar sem lífeyrir og sparnaður brunnu upp á báli verðbólgu og lán voru gjöf til útvaldra innanbúðargæðinga: Verðbólgan greiddi þau upp.

„Móðir allra kosningaloforða“ svikin
Verðtrygging er fyrst og fremst birtingarmynd á ónýtu peningakerfi. Verðlitlum gjaldmiðli sem æðir upp og niður þegar gefur á bátinn eða vel árar um skeið. Verðtryggð króna í höftum er að sönnu stærsta óleysta vandamál samtímans og skýrslan dregur eitt og annað fram sem undirstrikar staðreyndir máls.

Til dæmis það að upphafið loforð Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar strax eftir kosningar, og flutningur allra lánasafna yfir í óverðtryggð, var lýðskrum án innistæðu. Verðtrygging verður ekki afnumin á verðlitla mynt í höftum. Það er ávísun á enn verra ástand sem við landsmönnum blasti við setningu Ólafslaga árið 1979.

Eina leiðin út úr vandanum til lengri tíma er myntsamstarf. Þá fyrst er hægt að afnema verðtryggingu og brúka stöðuga mynt á lágum viðvarandi vöxtum. Það tekur tíma en er innan seilingar berum við til þá skynsemi að fara þá leið í gegnum samstarf 28 lýðræðisþjóða í Evrópu.

En sem dæmi þá eru vextir á neytenda- og húsnæðislán í Evrópu á bilinu 0,5-1,8%. Vaxtamunurinn við Ísland skiptir milljarðatugum ár hvert og yrði mesta lífskjarabót sem hægt er að hugsa sér.

Það varpar skýrasta ljósinu á innistæðuleysi loforðsins um tafarlaust afnám verðtryggingar, sem oft er nefnt „móðir allra kosningaloforða,“ að eina tillagan sem hönd á festir hjá nefndinni skuli vera sú að banna þau verðtryggðu lán til 40 ára. Lán sem framsóknarmenn komu á árið 1999 og áttu þá að gera öllum kleift að eignast húsnæði án vandræða.

Ef tekið er mið af sögulegri reynslu mun einungis ríkasti fjórðungur þjóðarinnar ráða við að kaupa hóflegt húsnæði á óverðtryggðum íslenskum vöxtum. Það er staðreynd sem einnig kemur vel fram í tillögum hópsins og ríkisstjórnin hefur engar útfærðar tillögur um hvar afgangur þjóðarinnar á að búa.

Skynsamir Færeyingar
Ríkisstjórnin virðist draga þá ályktun af verðtryggingarbölinu að höfuðvandamál þjóðarinnar sé að meðaltekjufólk eigi húsnæði. Lausn á skuldavandanum á því ekki að felast í stöðugri gjaldmiðli eða lægri vöxtum, heldur því að gera venjulegu launafólki illa kleyft að kaupa íbúðir.

Vandinn er mikill og kallar á stórtæka lausn. Sú eina sem enn hefur verið dregin fram er aðlild að myntbandalagi Evrópu. Eða skyldi það vera tilviljun að frændur okkar Færeyingar skuli festa sína krónu við þá dönsku sem er föst við evru og áður mark?

Nei, varla. Kostnaðurinn við krónuna er á annað milljarða-hundruð ár hver. Þann kostnað þarf að losna við ásamt verðtryggingu og höftum með raunhæfum lausnum. Ekki innistæðulausum loforðum rétt fyrir kosningar og stendur nú keisarinn klæðalaus með verðtrygginguna í fanginu.

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra.