Björgvin G.:Stór skref í starfsnámi

Árlega stunda 7-8.000 nemendur hér á landi starfsnám af ýmsum toga á framhaldsskólastigi.

Flestir þeirra þurfa að ljúka vinnustaðanámi eða starfsþjálfun á námsbraut sinni sem getur tekið allt frá 3 vikum til 126 af heildarnámsferli þeirra. Skilvirkasta leiðin til að draga verulega úr brottfalli á framhaldsskólastigi, sem er eitt það mesta í OECD, er án efa að efla iðn- og starfsnám. Með því skapast mikil samfélagsleg verðmæti í yfirgripsmikilli verk- og tækniþekkingu.

Með þetta að leiðarljósi er allsherjar- og menntamálanefnd nú að ljúka vinnu við frumvarp menntamálaráðherra um vinnustaðanámssjóði. Vonir standa til að málið verði að lögum í vor en með því er stigið stórt skerf til eflingar starfsnáms í skólakerfi okkar sem er eitt mikilvægasta markmið íslenskra menntamála í dag. Stórt skref í þá átt er áður nefnd rammalöggjöf um vinnustaðanámsjóð.

Mikilvægur áfangi til að efla iðn- og verknám í okkar héraði í Fjölbrautaskóla Suðurlands að ákvörðun ríkis og sveitarfélaga um að byggja við Hamar nýtt verknámshús. Færir það skólanum og svæðinu mikil tækifæri til þess að efla starfsnám í þessum stóra og góða skóla sem við Sunnlendingar höfum byggt upp á liðnum árum.

Til marks um metnaðinn fyrir hönd FSu er sú mikla samstaða sem skapaðist um byggingu nýs verknámshúss við Hamar. Sú samstaða var innsigluð þegar Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra undirritaði fyrr í vetur samning FSu, sveitarfélaganna og ríkisins um framkvæmdina og staðfesti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar ákvörðun Alþingis frá því í desember 2011 um að hafist skyldi handa við byggingu á nýjum Hamri.

Tilkoma áðurnefnds vinnustaðanámssjóðs mun auðvelda iðn- og starfsnámsnemum verulega að komast í vinnustaðanám. Í mörgum tilfellum á samning hjá meistara. Það hefur á stundum reynst nemum örðugt að komast að í vinnustaðanámi eða á samning hjá meistara. Nauðsyn þess að skapa fjárhagslegan hvata til að mæta kostnaði af náminu hefur lengi legið fyrir ásamt þörfinni á því að auka möguleika nemenda á að ljúka starfsnámi sínu á eðlilegum tíma. Því mun tilkoma sjóðsins efla og styrkja verk- og tæknimenntun í íslenskum skólum svo um munar.

Samkvæmt eðli máls fer starfsnám á framhaldsskólastigi fram hvorutveggja í skóla og á vinnustað. Fram að þessu hafa ekki verið tök á að mæta kostnaði fyrirtækja og stofnana vegna vinnustaðanáms en með tilkomu sjóðsins skapast tækifæri til þess ásamt því að bæta verulega aðgengi nemenda að þessum hluta iðn- og starfsnáms.

Vinnustaðanámssjóðurinn tekur til allra löggiltra iðngreina auk starfsnáms í greinum á borð við skólaliðar, félagsliðar og allra slíkra greina í heilbrigðisfræðum. Þetta fyrirkomulag gerir margt í senn; auðveldar nemanda að komast í starfsþjálfun og tryggir gæði og samfellu í náminu, auk þess að auðvelda fyrirtækjum og stofnunum að taka til sín námsmenn í þjálfun.

Því treysti ég því að Alþingi sjái út úr kófi átaka og málþófs og geri umrætt frumvarp um vinnustaðanámssjóð að lögum áður en þingi líkur í sumarbyrjun.

Björgvin G. Sigurðsson.

Fyrri greinLoftgæðavöktun í Fljótshverfi
Næsta greinUngmennafélag Selfoss Fyrirmyndarfélag ÍSÍ