Björgvin G: Reiknað til Reykjavíkur

Deilan um staðsetningu öryggisfangelsis tók á sig nýja mynd á dögunum.

Þá kom innanríkisráðuneytið óljósum kostnaðarútreikningum við nýbygginguna í Fréttablaðið án þess að kynna þá frekar eða formlega. Átti reikningurinn, að er virtist, að ramma inn vilja ráðherrans með reiknikúnstum að byggt skyldi í Reykjavík en ekki þar sem megin öryggisfangelsi landsins stendur; á Eyrarbakka.

Nú hef ég beðið um að þingmenn Suðurkjördæmis fái þessa útreikninga og forsendur þeirra. Það er nefnilega hægt að reikna allt til Reykjavíkur ef það er viljinn stendur til þess og mönnum liggur á að réttlæta pólitíska ákvörðun. Fer þá lítið fyrir byggðastefnunni.

Þetta verður rætt í þingsölum í þessari viku. Á fimmtudaginn fer fram umræða utan dagskrár sem ég óskaði eftir við innanríkisráðherra um staðsetningu á nýrri öryggisfangelsisbyggingu. Skýrist þá vonandi málið og forsendur útreikninga.

Í útreikningum innanríkisráðuneytisins um hagkvæmnina er, að því er fram kemur í umræddri frétt, háum tölum slegið fram um af hverju sé ódýrara að reisa nýtt öryggisfangelsi rétt við Reykjavík en að byggja við Litla Hraun. Til dæmis að á tilteknu tímabili sé ferðakosnaður áætlaður 600 milljónir króna. Meira en hálfur milljarður! En við höfum ekki séð skýrsluna eða forsendurnar og því erfitt að rökræða málið.

Af hverju þingheimi eru ekki kynntir útreikningarnir áður eða um leið og hluti þeirra er birtur má vera útsmogið áróðursbragð af hálfu ráðherra, en málefnalegt er það ekki.

Þarna er líku lagi beitt og þegar sama ráðuneyti reiknaði sig frá því að uppfylla gefin fyrirheit um að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar. Sameina þar krafta og starfsemi LHG undir einu þaki til framtíðar. Gæslunni sjálfri til mikilla hagsbóta um leið og ónotað húsnæði á Vallarheiðinni kæmist í not með jákvæðum áhrifum á atvinnulíf á Suðurnesjum.

Til að vinna frekar að því máli munum við þingmenn Suðurkjördæmis endurflytja þingsályktun okkar um flutning Gæslunnar suður eftir á nýju þingi og óska eftir öðru mati á hagkvæmni og kostnaði til að fá betri mynd af kostnaði og hagræði við flutninginn.

Einsog ég hef áður sagt er það fráleit ráðstöfun að byggja annað öryggisfangelsi rétt við Reykjavík þegar slíkt stendur nokkra tugi kílómetra frá. Við blasir þörfin á því að endurnýja gæsluvarðhaldsrými í Reykjavík. En að byggja og reka tvö öflug öryggisfangelsi á sama atvinnusvæði og stuttu millibili er óskynsamleg ráðstöfun.

Þorri opinberrar þjónustu er nú á höfuðborgarsvæðinu. Er ekki í lagi að það litla sem er utan þess þó nálægt sé fái að vera það áfram? Í stað þess að veikja stoðir hennar með því að hefja sömu þjónustu þar, líkt og lagt er til með nýju öryggisfangelsi á Hólmsheiði.

Það skyldi maður nú halda. Ef marka má harða gagnrýni núverandi stjórnarflokka á byggðastefnu síðustu áratuga ætti það raunar að blasa við.

Auðvitað er hægt að reikna allt til Reykjavíkur vilji menn beita slíkum kúnstum fyrir sig. Burðug byggðastefna er það hinsvegar ekki eða skynsamleg ráðstöfun á almannafé.

Ég mun fara fram á það við ráðherrann í umræðunum á fimmtudag að annar óháður aðili verði nú þegar fenginn til þess að meta kostnað við nýbyggingu fangelsis. Það er grundvallaratriði til að hægt sé að ræða efnislega um málið.

Mikið er undir í þessu. Við verðum að vanda til verka og Alþingi mun hafa síðasta orðið í þessu máli þegar fullnægjandi útreikningar og forsendur liggja fyrir.

Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis.

Fyrri greinLeikfélag Ölfuss æfir Himnaríki
Næsta greinNýr landshlutabæklingur kominn út