Björgvin G.: Merkur áfangi í fangelsismálum

Farsæll rekstur fangelsis á Litla Hrauni og um skeið í Bitru hefur orðið til þess að mikil áhersla er lögð á uppbyggingu á sviði fangelsismála á Suðurlandi.

Brýnt er að ráðast í bráðar úrbætur á Litla Hrauni. Ekki síst hvað varðar komu-og móttökuaðstöðu, ásamt boðlegri vinnuaðstöðu fyrir fangaverði og markmið um nýja álmu og fleiri rými.

Í öllu tilliti er því ástæða er til að fagna þeim merka áfanga sem framtíðar staðsetning opins fangelsis er að Sogni í Ölfusi. Flutningurinn markar ákvörðun til langrar framtíðar um að opið fangelsi verði staðsett þar og á þessu svæði til viðbótar við öryggisfangelsið á Litla Hrauni.

Ríkið á Sogn og því verður ráðist í uppbyggingu á staðnum. Því er þessari góðu viðbót við flóru betrunar í íslensku fangelsiskerfi markaður framtíðarstaður með ákvörðun um flutninginn á Sogn. Einnig er Sogni fundið framtíðarhlutverk eftir færslu réttargeðdeildarinnar.

Megintilgangur fangelsisvistar er betrun, auk þess að refsa fyrir brot á lögum. Það samspil fangelsisyfirvalda og Fjölbrautarskóla Suðurlands að gefa föngum kost á að mennta sig hefur tekist einkar vel. Þetta samstarf skiptir miklu máli. Framtíðar staðsetning opins fangelsis að Sogni byggir enn frekar undir þetta mannbótastarf sem unnið er af skóla- og fangelsisyfirvöldum. Opið og öflugt fangelsi að Sogni, skammt frá Litla Hrauni og FSu, bætir enn aðstæður til þessa mikilvæga starfs. Bæði fyrir þá sem afplána refsivist og samfélagið allt.

Tilfærsla opna fangelsisins að Sogni markar jákvæð tímamót og tækifæri til að efla og byggja undir vel heppnaðan áratuga rekstur fangelsis á Suðurlandi.

Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar.

Fyrri greinJákvæður rekstur á Árborg
Næsta greinHestamaður kærður