Björgvin G.: Evra í gegnum aðild – Bjargráð út úr blindgötu

Gerræðisleg fyrirætlan ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið hefur beint sjónum sem aldrei fyrr að þessu mesta hagsmunamáli síðari tíma á Íslandi og hvað er í húfi.

Líkt og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur ítrekað bent á í greinaröð í Fréttablaðinu snýst aðild að Evrópusambandinu um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Nefnilega þá að við getum ekki búið við norræna velferð með grískri framleiðni.

Til að skjóta stoðum undir efnahags landsins og byggja upp varanlegan stöðugleika þurfum við sterkan gjaldmiðil og lága viðvarandi vexti. Eina færa leiðin að þessu markmiði sem um leið endurreisir og tryggir efnahagslegt fullveldi okkar er aðild að ESB og upptaka evru.

Aðrar leiðir eru blindgötur og villuljós, líkt og þverpólitísk gjaldmiðlanefnd komst að í fyrra. Valkostirnir eru tveir; áframhaldandi rekstur á verðlítilli, hávaxta krónu í höftum eða upptaka evru í gegnum aðild að ESB.

Í tvo áratugi höfum við búið við aukaaðild að ESB í gegnum EES samninginn sem er meingallað fyrirkomulag. Á því er mikill lýðræðishalli og ekki möguleiki á aðgengi að því sem mestu skiptir fámenna þjóð; myntsamstarf.

Eða heldur einhver að það sé tilviljun að Færeyingar eru með sína krónu fastreirða við þá dönsku sem er aftur bundin við evru og áður þýskt mark? Auðvitað ekki. Hagkvæmni og hagsmunir fólksins í löndunum ráða. Fyrir vikið búa þjóðirnar við stöðugan gjaldmiðil, enga verðtryggingu og lága vexti.

Eitt dæmi um það mikla bjargráð fyrir vaxtakúguð íslensk heimili sem upptaka evru er: Stýrivextir á Íslandi eru nú um 6% og þykja lágir í sögulegu samhengi, svo dapurleg er vaxtasaga landsins. Stýrivextir á evrusvæðinu eru nú 0,25%. Til að taka annað dæmi úr álfunni þá eru sömu vextir 0,5% í Bretlandi.

Hreinn ávinningur af upptöku evru
Nú eru húsnæðislán landsmanna í kringum 1200 milljarðar króna. Í skýrslu fjármálaráherra til Alþingis árið 2012 kemur fram að 10% niðurfærsla allra húsnæðislána kostar um 130 milljarða króna, en 310 milljarða miðað við 25% niðurfærslu. Stærsti hluti þess kostnaðar myndi falla á Íbúðalánasjóð, eða 67-167 milljarðar eftir atvikum. Innlánsstofnanir bæru 40-99 milljarða og lífeyrissjóðir 18-44 milljarða.

Vítahringur verðfalls á gjaldmiðli og hækkunar húsnæðisskulda verður ekki rofin nema með upptöku eða fasttengingu við evru. Nú getur hver og einn mátað vaxtamuninn á því að borga 6% vexti eða 1-2% á hvort heldur er lán sín eða heildarlán allra landsmanna. Þannig er hægt að sjá í hendi sér hreinan ávinning af því einu að taka upp evrópska vexti í stað þess vaxtaokurs sem fylgir verðlítilli ör-mynt í höftum og verðbótum. Ábatinn hleypur á hundruðum milljarða fyrir þjóðarbúið í heild sinni.

Afnám verðtryggingar og yfirfærsla í óverðtryggð lán í íslensku umhverfi er engin lausn. Heldur hrein og klár blekking að í því felst bjargráð af nokkru tagi. Vextina borgum við hvort sem þeir eru greiddir um hver mánaðarmót eða dreift á lengri tíma. Enda hefur það ofur-loforð nú þegar verið svikið, rétt einsog flata niðurfærslan á skuldunum.

Rétt til að draga fram eina staðreynd þá gengur um á netinu mynd sem sýnir að 26 milljón króna húsnæðislán á Íslandi kostar að lokum 466 milljónir á tilteknum lánstíma en á Norðurlöndunnum í kringum 50 milljónir. Munurinn er allt að því tífaldur.

Um þetta snýst krafan um að klára aðildarviðræðurnar við ESB og fá að kjósa um kláraðan samning. Krafa um að losna úr hlekkjum krónunnar og búa við sambærileg lífskjör og best þekkjast þar sem verðmætasköpun samfélagsins hvílir á traustum gjaldmiðli og lágum vöxtum.

Björgvin G. Sigurðsson.

Fyrri greinSamið við Límtré um burðarvirki og yleiningar
Næsta greinBoðunaræfing vegna Kötlu