Björgvin G: Að rækta nýjan skóg

Margt bendir til þess að nýtt ár verði ár framkvæmda og uppbyggingar á mörgum sviðum.

Stærstu orkunýtingarverkefnin norðan heiða og sunnan eru að fara á fulla ferð og rammaáætlun um nýtingu ognáttúruvernd verður lokið á Alþingi í vor. Þá voru fjárllög liðiins árs þau síðust þar sem færa þarf niður og draga úr útgjöldum hins opinbera. Þar með er hægt að fjárfesta á ný í velferðarkerfi, menntakerfi og innviðum þess sem við almennt krefjumst af velferðarsamfélagi nú til dags.

Eitt mikilvægasta verkefni næsta árs fyrir okkur Sunnlendinga er að mynda samstöðu um að skilgreindur hluti nýrrar orku sem framleidd verður í héraðinu verði nýtt á svæðinu. Þar á ég bæði við vatnsafl og jarðhita. Þetta skiptir miklu máli til þess að hækka atvinnu- og launastigið á svæðinu. Auka framboð á störfum fyrir iðn- og tæknimenntað fólk með því að reisa öflug úrvinnslufyrirtæki í iðnaði og fullvinnslu. Samhliða orkunýtingu og iðnaði mun fylgja ný stórskipahöfn í Þorlákshöfn sem er undirstaða þess að hægt sé að byggja upp öflugan iðnað á svæðinu.

Annað meginverkefni er að efla innviði menntastofnana svæðisins. Eitt af því markverðasta sem ávannst í fjárlögum fyrir nýja árið var fyrsta framlag til Hamars, verknámshúss FSu. Því verður á þessu ári farið í hönnun og framkvæmdir við húsið sem mun efla verknámsaðstöðu skólans verulega. Einnig er miklvægt að standa saman að því að styrkja stöðu Háskólafélagsins og þeirrar háskólastarfsemi sem fram fer á svæðinu. Allt miðar þetta að því að efla innviði svæðisins, fjölga fjölbreyttum störfum og auka við valkosti á vinnumarkaði.

Sem betur fer er atvinnustig betra á Suðurlandi er víðast á landinu. Sterkur landbúnaður og öflug ferðaþjónuta skýra hluta af því. Má nefna að ófá störfin hafa orðið til á samdráttartímum í viðhaldsverkefnum á þeim þúsunda sumarhúsa sem eru á Suðurlandi. Okkur vantar samt sem áður fjölbreyttari flóru starfstækifæra og þar skiptir orkunýting og enn öflugri menntastofnanir miklu máli.

Fólksfækkun ógnar samfélaginu í Mýrdals- og Skaftárhreppum. Þetta eru fámenn og dreifbýl sveitarfélög þar sem fólki hefur fækkað. Fyrir utan mögulega sameiningu við önnur sveitarfélög þarf að gera allt sem hægt er til að byggja upp ölfuga viðspyrnu með nýjum atvinnutækifærum. Í því samhengi var framlag á fjárlögum til Klausturstofu mikilvægt innlegg en við uppbyggingu hennar hafa heimamenn bundið miklar vonir. M.a. vegna aukinna umsvifa í einum helsta vaxtasprota íslensks atvinnulífs; ferðaþjónustunni.

Einnig þarf að leiða til lykta í rammaáætlun hugmyndir heimamanna um Búlands- og Atleyjarvirkjanir sem geta haft mikla uppbyggingu í för með sér eystra. Vanda þessara samfélaga þarf að bregðast við bæði í bráð og lengd.

Landbúnaður er hvergi sterkari á landinu en á Suðurlandi. Auk hefðbundu greinanna er áríðandi að efla stöðu nýrri greina landnýtingar. Til dæmis skógræktar. Nú er sú grein að byrja að taka á sig mynd eftir áratuga uppbygginu enda drifin áfram af miklum metnaði og hugsjón. Nú aukast stöðugt nytjar af skógunum og því þarf að auka á ný framlög til þeirra eftir samdrátt liðinna ára.

Mikilvægt er að samfella sé í ræktun skóganna og sem betur fer var, vegna eindreginnar andstöðu stuðningsmanna skógræktar í þingliðinu, dregin til baka tillaga um 40 mkr. aukinn niðurskurð á framlögum til skógræktarinnar á milli 2. og 3. umræðu fjárlaga. Skógrækting er eitt dæmi af mörgum um fjölbreytta landnýtingu sem mun í auknum mæli efla atvinnulíf á landsbyggð.

Staðreyndin er hinsvegar sú að til að fleiri greinar en þær sem nú eru styrktar með beingreiðslum og innflutningstollum nái sér betur á strik þarf að finna leiðir til að styðja betur við þær. Ein leið til þess eru svokallaðri landnýtingarstyrkir. Með þeim eru landeigendur styrktir beint til landnýtingar per ræktaðan hektara. Svokallaðar grænar greiðslur að hluta til í stað framleiðslutengdra styrkja og samhliða þeim.

Eitt af því sem stendur upp úr liðnu ári eru þau þáttaskil sem urðu í samgöngumálum á Suðurlandi á liðnu með tilkomu brúarinnar yfir Hvítá, Suðurstrandavegi og nýjum 7 km. áfanga tvöföldunar á Suðurlandsvegi. Þessar stórframkvæmdir í vegamálum miða allar að því að auka umferðaröryggi og stytta leiðir. Sameina svæði og byggja þannig undir atvinnu- og mannlíf með fjölbreyttum hætti. Þessir miklu áfangar í samgöngumálum eru ávinningur af samstöðu sveitarstjórnarmanna og þingmanna til margra ára. Megi það verða leiðarljós að samstöðu í öðrum stórum málum sem efla og bæta mannlíf á Suðurlandi.

Þakka ég öllum þeim mikla fjölda sem ég hef átt samstarf við á árinu fyrir það liðna og hlakka til samskipta á nýju ári.

Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis.

Fyrri greinÞrír Þórsarar í Stjörnuleikinn
Næsta greinFlugeldar fældu hrossastóðið