Bjarni Harðar: Óheillaskref í skólamálum á Suðurlandi

Meirihluti bæjarstjórnar í Árborg undirbýr þessa dagana að hætta þátttöku í samstarfi sveitarfélaga á Suðurlandi um rekstur Skólaskrifstofu.

Þegar þessar línur eru ritaðar hefur verið boðaður fundur í fræðslunefnd Árborgar þriðjudaginn 17. apríl þar sem taka á málið fyrir og endanleg staðfesting þeirrar ákvörðunar verður svo í hendi bæjarstjórnar.

Það er eðlilegt að sveitarfélög í landinu leiti allra leiða til sparnaðar í rekstri og ákvörðun sú sem meirihlutinn stefnir nú að er m.a. gerð með vísan til þess. En hér ræður skammsýni för. Samstarf sunnlenskra sveitarfélaga í rekstri skólaskrifstofunnar hefur verið farsælt og það er horft til þess í öðrum landshlutum vegna þess hversu vel hefur hér tekist til.

Skólaskrifstofan hefur undirbúið samstarf við Fjölbrautaskóla Suðurlands sem er spennandi verkefni en framtíð ræðst nú af afstöðu bæjarstjórnar í því sveitarfélagi sem bæði skólinn og Skólaskrifstofan starfa innan.

Lakari þjónusta
Á vegum fræðslustjóra sveitarfélagsins hafa verið færð fram töluleg rök fyrir sparnaði en þær tölur er afar erfitt að sannreyna fyrirfram. Það er aftur á móti ljóst að fagleg gæði þjónustunnar minnka við það að þjónustusvæðið verður helmingi minna. Hagkvæmnin fer sennilegast sömu leið.

Ekki þarf að fjölyrða að skólastarf skilar sér í því lífi sem við tekur. Í rækt við þá nemendur sem þurfa meiri og öðruvísi þjónustu en allur fjöldinn, skiptir öllu að rétt sé á málum haldið og að stöðugleiki ríki. Það er augljós hagur þess sem þjónustunnar þiggur og til lengri tíma alls samfélagsins.

Gagnvart okkur sem fylgjumst með málefnum fatlaðra þá höfum við þegar horft á mikla breytingu með tilflutningi allrar þjónustu frá ríki til sveitarfélaga fyrr á þessu kjörtímabili. Það er ábyrgðarlaust að ráðast á sama tíma í að umturna sérfræðiþjónustu grunnskólanna.

Tilræði við samstarf sveitarfélaga
Tugir einstaklinga hafa í dag atvinnu hér á Selfossi við samstarf sveitarfélaganna á Suðurlandi. Þar vega stærst skrifstofur SASS, Skólaskrifstofu og annarra sameiginlegra verkefna en til hliðar eru svo hálfopinber verkefni s.s. hagsmunagæsla launafólks, bænda, íþróttastarf og fleira sem allt skilar okkur störfum og sveitarfélaginu tekjum.

Þá er ótalinn tveir af stærstu vinnustöðum bæjarins, Fjölbrautaskóli Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Nú er einmitt unnið að samstilltu átaki allra sveitarfélaga til stórfelldrar uppbyggingar á báðum þessum stofnunum sem eru okkur mikilvægar út frá lífskjörum, öryggi, menningu og atvinnu.

Nú ætla ég ekki að halda því fram að öllu þessu starfi sem hér er hampað sé ógnað með því að Árborg dragi sig út úr Skólaskrifstofunni. En það er alveg ljóst að við bregðumst með því trausti okkar samstarfssveitarfélaga og andstaða þeirra við þennan gerning er skýr. Það er á eftir ekki jafn sjálfsagt og áður að miðlæg atvinnustarfssemi Sunnlendinga sé staðsett á Selfossi.

Staða okkar til að fylkja sunnlensku liði í baráttu fyrir uppbyggingu hvort sem er í F.Su. eða H.Su. verður aldrei sú sama og áður.

Samráð við íbúa
Sjálfstæðisflokkurinn hét kjósendum sínum samráði og samvinnu kæmust þeir til valda. Ákvörðun um að hætta í Skólaskrifstofu Suðurlands hefur ekki verið rædd í samfélaginu heldur var farið með málið sem leyndarmál þar til í síðustu viku. Engra umsagna hefur því enn verið leitað meðal foreldrafélaga í sveitarfélaginu, skólaráða, sérkennara, almennra kennara, fagfólks á leikskólunum né almennra starfsmanna eða sérfræðinga á sviði uppeldismála.

Sömuleiðis hafa hagsmunaðilar á borð við Þroskahjálp á Suðurlandi, sem er foreldrafélag fatlaðra barna, ekki fengið málið til umsagnar og svo mætti lengi telja.

Það er von þess sem hér ritar að meirihluti bæjarstjórnar gái að sér í þessu máli og flýti sér hægt.

Höfundur er varabæjarfulltrúi og formaður Þroskahjálpar á Suðurlandi