Bjarni Harðar: Fátækt og skuldabasl á Íslandi

Nýverið komu út tvær gagnmerkar skýrslur. Önnur frá Rannsóknarnefnd Alþingis sem hefur með lofsverðum hætti greint helstu þætti í þeirri spillingu, græðgi og heimsku sem leiddi til falls bankanna.

Hin skýrslan er frá Seðlabanka Íslands og fjallar um skuldastöðu heimilanna í landinu og hefur hlotið minni umfjöllun. Hún er þó ekki síður merk og beinir sjónum okkar að vanda samtímans og framtíðar.

Hækkum lægstu laun
Eins og skýrsla þessi sýnir er stærsta vandamál kreppunnar og kaupmáttarrýrnunar kjaraskerðing hinna lægst launuðu. Það vegna hennar sem við sjáum nú lengjast raðir fólks sem leitar sér mataraðstoðar hjálparstofnana og önnur merki um áþreifanlega sára fátækt hjá barnafólki. Mikill meirihluti íslenskra heimila hafði borð fyrir báru til að mæta auknum skuldum og það sama á við um meirihluta launþega. Flestir sem eru með laun um og yfir 300 þúsundum gátu tekið á sig kjaraskerðingu verðbólgunnar.

En hinir lægst launuðu áttu hér enga möguleika. Þó að það sé minnihlutahópur þá er hann alltof stór sá hluti þjóðarinnar sem fær 140-180 þúsund í laun á mánuði. Við þurfum á allra næstu misserum að hækka lágmarkslaun í 200 þúsund samhliða því að haldið er aftur af öðrum launahópum. Aðeins þannig getum við síðan ýtt bótum þeirra sem búa við atvinnuleysi og örorku upp í það að slaga í framfærslukostnað.

Ef þessi leið verður ekki farin þá berum við ábyrgð á að skapa hér í landinu fátæktarhverfi og alvarlega gjá milli þeirra sem lifa við mannsæmandi kjör og þeirra sem gera það alls ekki.

Kreppulánasjóður
Vitaskuld er einnig stór hópur sem er á viðunandi launum en með ókleyfar skuldir. Það hefur komið fram að þau úrræði sem nú eru í boði gagnast hluta þessa hóps en ekki öllum. Umtalsverður hópur er svo skuldsettur að þar duga engar kerfisbundnar lausnir. Í reynd eru þetta heimili sem eru gjaldþrota en samfélagið getur gert óhjákvæmilegan eignamissi sársaukaminni en ella.

Það er vitaskuld hægt að klæða lausnir í svo flókinn búning orðskrúðs og kerfismennsku að enginn skilji. Einfaldast og skynsamlegast er að horfa til þeirra leiða sem farnar voru hér á landi í kreppunni miklu 1930. Þá var hér fyrst og fremst bændasamfélag og í stað þess að bændur hrökkluðust af eignum sínum var þeim boðið að afhenda þær Kreppulánasjóði sem svo leigði fyrri eigendum þær aftur og veitti viðkomandi forkaupsrétt.

Hér er ekki um að ræða flatan niðurskurð skulda sem bæði óframkvæmanlegur og einnig mest í þágu hinna stóru heldur sértæka leið sem enginn færi til þess að hagnast á. Enginn ætti þá heldur möguleika á að eiga forkaupsrétt á mörgum óðulum.

Á réttri leið
Þrátt fyrir að á móti blási rís íslenskt samfélag nú hraðar en nokkur þorði að vona fyrir ári síðan. Það eigum við fyrst og fremst dug íslensku þjóðarinnar að þakka og þeim miklu verðmætum sem hér eru í náttúru og mannauði.

Miklu skiptir líka að stjórnvöld hafa ekki ansað neinum þeim óðagotshugmyndum sem uppi hafa verið í samfélaginu heldur stýrt flestu af hófsemi og festu. Ef frá er talin sú endileysa Samfylkingarinnar að sækja um aðild að ESB er stjórnarstefnan nokkuð góð og það varðar miklu við endurreisnina.

Það fer samt ekki milli mála að betur má ef duga skal og hér hefur verið bent á tvenn úrræði sem geta gagnast í þeirri baráttu sem mikilvægust er á næstu misserum.

Bjarni Harðarson, atvinnurekandi sem skipar 2. sætið á lista VG í Árborg.

Fyrri greinEldingahætta í 30-40 km fjarlægð
Næsta greinFlóðahætta ef sprungan færist