Bjarni Harðar: Af moldviðri og sundlaugarlokun

Það er öskufall í austursveitum og af því mikið tjón á landi og mannvirkjum. Hér í Flóanum ber meira á pólitísku moldviðri sem er ólíkt meinlausara og sumt næsta broslegt.

Sjálfstæðismenn kunna því jafn illa að vera í stjórnarandstöðu í landsmálum og í sveitarstjórn. Og það sem meira er, þeir kunna sig heldur ekki sem best í þessu hlutverki. Það er þannig afskaplega misráðið að ráðast gegn eigin ákvörðunum á opinberum vettvangi. Kjósendur eru miklu betur upplýstir heldur en svo að þessi aðferð dugi almennilega.

Gott dæmi um þessa umræðu er óánægja sem reynt hefur verið að vekja upp útaf því að Sundhöll Selfoss lokaði á lögboðnum frídegi, Sumardeginum fyrsta. Ákvörðun um það var tekin við sparnaðaráform í bæjarsjóði og þá komu ekki fram athugasemdir við þessa ráðstöfun í bæjarstjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn á þó sína fulltrúa.

Það kostar klof að ríða röftum var sagt hér áður fyrr og það sama á við þegar skera þarf niður á krepputímum. Sparnaður sést og við finnum fyrir honum. Meirihlutinn í Árborg hefur sýnt ábyrga hegðun í þeim efnum og samt fylgt þeirri stefnu að lágmarka uppsagnir á tímum atvinnuleysis. Með því að gefa frí á stórhátíðum mátti ná fram sama sparnaði og hefði annars orðið með fækkun starfsmanna.

Við sem störfum í ferðaþjónustu þekkjum enda mætavel að þá þegar opið er á slíkum dögum er aðsókn jafnan lítil, þó margir séu í fríi. Undantekningar frá þessu eru í bæjum sem sérstaklega gera út á ákveðnar hátíðir eins og Hveragerði og Garðyrkjuskólinn á Reykjum gera á sumardaginn fyrsta. Það er engin ástæða til að Árborg troði hér nágrönnum sínum um tær heldur þvert á móti eigum við sem flest að koma í blómabæinn þennan dag.

Sundlaugarsparnaðurinn hér er líka algerlega sambærilegar við það sem gerist í ríki Hönnu Birnu handan heiðar. Þar hefur stórum hluta sundlauga verið lokað á stórhátíðum en látið duga að hafa eina eða tvær opnar í allri borginni. Þeir Vesturbæingar eru vissulega til sem telja sig ekki geta farið í sund nema í sinni Vesturbæjarlaug og þeir Selfyssingar sem ekki komast nema í Selfosslaugina. En hinir eru í miklum meirihluta sem vita að tilbreytingin er góð, jafnvel þó að hún á tyllidögum kosti örfáa bensínlítra.

Í vikunni kom svo fram að sparnaðaraðgerðir bæjarsjóðs hafa skilað árangri sem er dýrmætara en flest annað í bæjarpólitíkinni og kveður niður allan söng um að Árborg sé á hausnum. Nú skiptir öllu máli að umræðan týnist ekki í moldviðri og að áfram verði fetað varfærnum skrefum í fjármálum Árborgar.

Bjarni Harðarson, atvinnurekandi sem skipar 2. sætið á lista VG í Árborg.

Fyrri greinSamningur Selfosspresta hjá vígslubiskupi
Næsta greinÖkumaðurinn lét sig hverfa