Birna Kristbjörg: Framboð til stjórnlagaþings

Ég heiti Birna Kristbjörg Björnsdóttir og mig langar að kynna mig aðeins fyrir þér lesandi góður.

Menntun og starfsreynsla. Ég er viðskiptafræðingur að mennt, en er líka eiginona, móðir og amma. Ég lærði í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri og útskrifaðist í júní 2010. Síðasta starf til tæpra 11 ára (1999 til ársloka 2009) var hjá Sýslumanninum í Keflavík þar sem ég starfaði í útibúinu í Grindavík. Fámennu útibúi þar sem starfsmenn komu að nánast öllum verkefnum sem unnin eru á sýsluskrifstofum. Áður heimavinnandi húsmóðir, barnauppeldi og ýmis störf utan heimilis.

Um mig og mína. Ég er gift Jóhanni Þresti Þórissyni yfirvélstjóra og saman eigum við uppkomin 3 börn, og 3 barnabörn en það fjórða væntanlegt. Börnin okkar eru: Þórir Ingi togarasjómaður f. 1982, í sambúð með Hönnu Öglu Ellertsdóttur og þau eiga von á barni. Fyrir á Þórir dótturina Emmu Lív, f. 2004. Anna Lilja kennaranemi, f. 1983 gift Einari Gunnarssyni kennaranema, þau eiga 2 börn, Jóhann Sverri f. 2008 og Klöru Maríu f. 2009. Björn Ólafur f. 1991, hann er á lokaönn í Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Við höfum búið í Grindavík frá árinu 1984 en erum bæði „að norðan“. Ég er fædd á Akureyri, dóttir Klöru Gestsdóttur frá Akureyri, hún er látin, og Björns Gunnarssonar nuddfræðings, sambýliskona hans er Sigríður Olgeirsdóttir. Pabbi og Sigríður eru bæði frá Ólafsfirði. Jóhann Þröstur maðurinn minn er frá Blönduósi, sonur Ingibjargar Kristjánsdóttur og Þóris Jóhannssonar harmonikuleikara. Ingibjörg býr á Blönduósi en Þórir lést fyrr á þessu ári (á bloggsíðu eru nánari upplýsingar ef einhverjir hafa áhuga á að skoða).

Ég býð mig fram til stjórnlagaþings vegna áhuga á að taka þátt í því einstaka verkefni sem endurskoðun stjórnarskrárinnar er. Ég mun leggja mig fram um að vinna af heilindum og hafa að leiðarljósi hagsmuni heildarinnar. Réttlæti, sanngirni, heiðarleiki, jafnrétti og virðing eru gildi sem eru mér mikilvæg. Ég hef mikinn áhuga á að endurskoðuð stjórnarskrá verði vel úr garði gerð, skilmerkileg og auðskiljanleg.

Nokkur atriði sem ég tel þurfa að hafa í huga við endurnýjun stjórnarskrárinnar. Gerum stjórnarskrá sem fara á eftir og setjum ákvæði í hana sem tryggja að farið sé eftir henni og hún verði virt. Skýrt skrifaða stjórnarskrá sem ekki er hægt að margtúlka. Mannréttindi og lýðræði eru mikilvæg gildi. Ég legg áherslu á að þrískipting valdsins verði virk, skýrt valdsvið og skýr valdamörk. Þá tel ég mikilvægt að fá í stjórnarskrá ákvæði sem girða fyrir möguleika á að hygla sérhagsmunum einstaklinga eða hópa. Möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilvæg mál. Jafnrétti með sérstakri áherslu á jafnrétti kynjanna. Í dag eigum við falleg orð á blaði um jafnrétti (í lögum) en þó er mikill misbrestur á að þau séu virt t.d. launajafnrétti og jafna möguleika þegar sótt er um vinnu. Ég vil sjá ákvæði í stjórnarskrá um jafna skiptingu kynja; á alþingi, í ríkisstjórn, hæstarétti, dómstólum, öllum stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og helst almennt í þjóðfélaginu. Ef breyta á kjördæmaskipan og atkvæðavægi þarf að standa vörð um hag landsbyggðarinnar (nánar á heimasíðu minni).

Frekari upplsingar: Heimasíðan mín er http://birnakristbjorg.123.is hvet ykkur til að skoða hana. Einnig er ég með facbook síður, linkar á þær síður eru á heimasíðunni hægra megin undir myndinni. Á facbook síðunni „Birnu Kristbjörgu á stjórnlagaþing“ hef ég sett upp umræðuþræði um viðfangsefni stjórnlagaþings. Öllum velkomið að tjá sig þar og lítið mál að setja upp fleiri þræði ef þarf. Hin facebook síðan „Birna Kristbjörg Björnsdóttir (Framboð á stjórnlagaþing)“ er vinasíða og endilega sendið vinabeiðni ef þið hafið áhuga á því.

Kjósum. Það verður kosið til stjórnlagaþings þann 27. Nóvember næstkomandi. Það eru mannréttindi að hafa kosningarétt, nýtum réttindi okkar til að hafa áhrif á hverjir veljast til að breyta stjórnarskránni og kjósum.
Kær kveðja til lesenda og megið þið eiga góðan dag.

Birna Kristbjörg Björnsdóttir 4184

Fyrri greinÓsátt við niður­skurð vegna refaveiði
Næsta greinSólheimar senda ráðherra tillögu að samkomulagi