Bændur bera tjónið

Álftin er fallegur og tignarlegur fugl sem venjulega heldur sig í stórum hópum og verpir víða um Suðurland. Undanfarin ár hefur álftarstofninn vaxið mjög hratt en heildartalning sem fram fór árið 2020 sýndi að stofninn hafði vaxið um tæp 30% frá fyrri talningu árið 2015.

Álftin á enga nátturulega óvini hér á landi, og sem dæmi ræður tófan og minkurinn illa við hana og því hægt að álykta að hafi hún fjölgað sér jafn hratt, gæti hún verið orðin 50% stærri en árið 2020. Stofninn er orðinn gríðarlega stór og stöðugur og er það mín skoðun að alger friðun sé tímaskekkja, að hófleg stýring á stofnstærðinni sé skynsamari leið en að leyfa henni að fjölga sér óhindrað. Fuglinn safnast á sömu túnin og akrana ár eftir ár. Þær éta nýgræðing, trjágræðlinga, leggjast í troðning og svo uppskeru- og gæðatjón verður gríðarlegt. Fæling virkar illa, álftir venjast hljóð- og sjónfælingu vel og því ræðst ekki við hana.

Bændur í Rangárþingi ytra hafa á undanförnum árum verið að þróa markvisst aukna kornrækt sem stuðning við sinn búrekstur. Ef við tökum dæmi þá gæti kostnaður við ræktun eins hektara af korni legið í kringum eina milljón króna. Áætla má að meðalbóndi sé að setja niður í 10 ha af landi. Fjölmörg dæmi eru um að 40 til 50% af akrinum sé ónýtur, en tjónið sem af skemmdunum hlýst lendir alfarið á þessum bændum. Gæti tjónið því numið um 4 til 5 milljónum króna.

Hófleg stýring í stað alfriðunar
Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að bæta bændum tjón sem stafar af ágangi álfta og gæsa, en slíkar bætur eru greiddar úr sameiginlegum sjóðum skattgreiðenda. Meginreglan er að allar fuglategundir eru friðaðar nema annað sé kveðið á um í reglugerð; þar sem álftin er ekki á lista veiðanlegra tegunda er hún því alfriðuð. Skynsamlegra væri að bregðast við orsökunum og endurskoða hina algjöru friðun. Alþingi hefur ítrekað fjallað um stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álft og um möguleg tímabundin veiðileyfi, en án endanlegrar niðurstöðu. Það sýnir að alfriðun álftarinnar er ekki óumbreytanleg stefna; umræðan þarf að taka mið af stækkandi stofni. Við þessu verður að bregðast – að minnsta kosti til að lágmarka tjón á verðmætu ræktarlandi.

Lögin eru örugglega ekki úrelt en þau krefjast endurskoðunar með reglubundnum hætti og þá er nauðsynlegt að horfa til stöðu stofnsins hverju sinni. Samkvæmt lögum frá árinu 1994 er heimilt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að veita tímabundin leyfi til veiða til að koma í veg fyrir tjón. Þessi heimild ætti að geta opnað leið fyrir einhvers konar stýringu án þess að aflétta alveg alfriðun álftarinnar. Þegar tegund er hvorki á válista né í hnignun en veldur sannarlegu tjóni þarf að grípa til einhverra raunverulegra aðgerða.

Landbúnaður og tengd starfsemi er mikilvægur hlekkur í atvinnulífi Rangárþings ytra og hefur verið lengi. Ég geri mér grein fyrir að álftin hefur sterka stöðu í íslenskri náttúruvitund og menningu og er mikilvæg í fjölbreyttum vistkerfum landsins. En stundum er nóg nóg. Ég hvet matvælaráðherra til þess að setja málið á dagskrá og leggja til raunhæfar lausnir sem allir geta sætt sig við.

Eggert Valur Guðmundsson
Oddviti Rangárþings ytra

Fyrri greinHamar vann nágrannaslaginn – Selfoss og Þór Þ. úr leik
Næsta greinÞrjú gull á bikarmóti í bardaga