Arsenalklúbburinn á Íslandi 30 ára

15. október árið 1982 stofnuðu austur á Selfossi, undirritaður og Hilmar Hólmgeirsson nú bílasali í Reykjavík stuðningsmannaklúbb Arsenal á Íslandi með þann tilgang að gefa út fréttablöð, útvega aðdáendum Arsenalvarning og standa fyrir ferðum á leiki Arsenal til Englands.

Margir höfðu á orði að þetta væri næsta von-lítið verk og þjónaði svo að segja engum tilgangi en af stað var farið. Við vissum auðvitað að stuðningsmenn Arsenal voru margir á Íslandi enda margir góðir menn borið hróður félagsins hér upp á klakann líkt og Albert heitinn Guðmundsson, Ríkharður Jónsson og Sigurður Jónsson svo dæmi séu tekin.

Hægt fór það af stað en hægt og bítandi óx klúbbnum fiskur um hrygg og taldi um og yfir 2000 meðlimi þegar best lét og færast nú á 30. ára afmælinu hægt og bítandi að því marki. Margt skemmtilegt hefur fram farið í starfsemi klúbbsins á þessum 30. árum en á þeim 20. árum sem undirritaður stjórnaði klúbbnum var farið í um 50. ferðir utan til þess að sjá goðin, gefin voru út um 40. fréttablöð, heimsóknir farnar um allt land til þess að hitta félagsmenn og horft saman á leiki, útnefndir voru nokkrir heiðursfélagar og staðið fyrir og tekið þátt í knattspyrnukeppnum við stuðningsmenn annarra enskra knattspyrnuliða svo dæmi séu tekin.

Á þessum 20. árum eignaðist maður fjöldann allan af góðum vinum sem enn halda góðu sambandi, lokahnykkurinn í þessu 20. ára starfi mínu sem formaður var síðan að gefa út veglega afmælisbók með um og yfir 1000 ljósmyndum úr starfi klúbbsins. Það er því mikið tilhlökkunarefni að Arsenalklúbburinn hefur boðað til afmælisfagnaðar í Ölveri í Glæsibæ sunnudaginn 14. október n.k. kl 14.00.

Klúbburinn stendur svo fyrir 30. ára afmælisferð til London á leik með Arsenal í lok mánaðarins þar sem snætt verður á Emirates stadium, hitt leikmenn og síðan farið á leik með þessu dásamlega knattspyrnufélagi, þar ytra munu fagna 30 ára afmælinu talsvert á þriðja hundrað meðlimir klúbbsins. Stjórn Arsenalklúbbsins er vel skipuð í dag þar sem fremst fer formaðurinn Sigurður Enoksson úr Grindavík.

Áður hafði Jón Víkingur Hálfdánarson sinnt formennsku um nokkurra ára skeið. Ég er ákaflega stoltur og glaður yfir starfi og þrótti klúbbsins og vil nota þetta tækifæri og óska Arsenalaðdáendum um allt land innilega til hamingju með afmælið um leið og ég vona að sem flestir samfagni klúbbnum á þessum tímamótum, áfram Arsenal.

Kjartan Björnsson, formaður 1982-2002.