Árni Rúnar: Velferð og jöfnuður

Samfylkingin er jafnaðar – og velferðarflokkur. Það er hlutverk hennar standa vörð um þessi grunngildi í stefnu jafnaðarmanna í íslensku þjóðfélagi.

Þjóðin ætlast til þess af henni. Og það hefur líka sýnt sig að hún treystir Samfylkingunni best til að verja þessi grunngildi.

Í kjölfar hrunsins hefur það ekki verið einfalt verkefni að verja velferðina. Að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum og stöðva skuldasöfnun með niðurskurði og aukinni tekjuöflun ríkissjóðs hefur reynt á þanþolið hjá mörgum. Sú stefna að verja velferðina undir forystu jafnaðarmanna hefur hins vegar reynst mikilvægur liður í endurreisnarstarfinu.

Stöndum vörð um heilbrigðisþjónustuna
Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa víða þurft að aðlaga rekstur sinn að breyttum aðstæðum. Það hefur í mörgum tilvikum reynst mjög erfitt vegna þess að oftast er fyrst og fremst verið að sinna grunnþjónustunni. Heimamenn hafa líka risið upp sem einn maður gegn öllum hugmyndum sem kippt geta stoðunum undan rekstri heilbrigðisþjónustunnar i heimabyggð.

Velferðarstefna jafnaðarmanna byggir á því að jafna lífskjör og tækifæri fólks. Jafn aðgangur landsmanna að heilbrigðisþjónustu er forgangsverkefni jafnaðarmanna. Áhyggjur fólks af heilbrigðisþjónustunni í sinni heimabyggð eru eðlilegar – hún er öllum mikilvæg og bent hefur verið á að nú sé búið að skera þjónustuna á einstökum stöðum inn að beini og ekki sé hægt að ganga lengra. Á næsta kjörtímabili verður það verkefni þingmanna Samfylkingarinnar að efla heilbrigðisþjónustu landsmanna um allt land – einmitt til þess að tryggja jafnan aðgang að þessari sjálfsögðu þjónustu.

Jafnt aðgengi að menntun – forsenda jafnaðarsamfélags
Jafnt aðgengi að menntun óháð efnahag og búsetu er líka leiðarstef í stefnu jafnaðarmanna. Góð undirstöðumenntun er lykillinn að jöfnum tækifærum. Þess vegna verður að tryggja að allir eigi jafnan aðgang að góðri grunn – og framhaldsmenntun. Sótt hefur verið að þessum stoðum samfélagsins í kjölfar hrunsins þegar niðurskurðarhnífurinn hefur verið á lofti, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Öflug uppbygging starfsmenntanáms á framhaldsskólastigi er lykilþáttur í því að bjóða ungu fólki upp á nám við hæfi og stuðla þannig að því að auka atvinnumöguleika þess í framtíðinni.

Sem jafnaðar – og velferðarflokkur verður Samfylkingin að standa vörð um þessar grunnstoðir samfélagsins, heilbrigðisþjónustuna og menntunina. Með því að gera það með kröftugum hætti stöndum við best við bakið á þessum grunngildum jafnaðarstefnunnar; velferðina og jöfnuðinn.

Árni Rúnar Þorvaldsson
Bæjarfulltrúi á Hornafirði
Býð mig fram í 2. – 4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi 16. og 17. nóvember