Arna Ír: Verslum í heimabyggð!

Nú eru sennilega flestir farnir að huga að undirbúningi jólanna. Um jólin gerum við vel við okkur í mat, verðum okkur jafnvel úti um nýja flík, látum klippa okkur og snyrta ásamt því að gefa fjölskyldu og vinum góðar gjafir.

Þetta er einmitt tilefni þess að ég sest niður og skrifa þetta greinarkorn.

Mig langar svo óskaplega til þess að hvetja íbúa í Sveitarfélaginu Árborg og Sunnlendinga alla til þess að nýta sér það góða framboð sem við höfum af verslunum og þjónustuaðilum í sveitarfélaginu. Við höfum í rauninni lang flest ef ekki allt sem við þurfum hér, bókaverslanir, fataverslanir, íþrótta- og útivistarverslanir, blómabúðir, byggingavöruverslanir, bakarí, sælkeraverslun, handverksmarkaði, raftækjaverslanir, gjafavöruverslanir, hestavöruverslun, ísbúðir, gleraugnaverslun, matvöruverslanir ásamt hárgreiðslustofum, snyrtistofum, ljósmyndastofum og svo mætti áfram lengi telja.

Með því að versla í heimabyggð stuðlum við ekki bara að blómlegra mannlífi í sveitarfélaginu heldur varðveitum við þau fjölmörgu mikilvægu störf sem eru innan verslunar og þjónustu og viðhöldum þeirri þjónustu sem í boði er. Fyrirtækin greiða svo að sjálfsögðu sín aðstöðugjöld og starfsmenn sitt útsvar til sveitarfélagsins til hagsbóta fyrir alla.

Að versla í heimabyggð hefur fleiri jákvæð áhrif. Það er afar gott fyrir pyngjuna og umhverfið að sleppa við að keyra eða fljúga um langan veg eftir vörunum, svo ekki sé talað um tímasparnaðinn og mun minni pirring!

Það er í mörgu tilliti nauðsynlegt fyrir okkur íbúa í sveitarfélaginu að hafa blómleg fyrirtæki, verslanir og þjónustuaðila. Ekki bara þegar okkur í skyndi vantar stígvél á börnin, blek í prentarann eða hluti til viðhalds á heimilum okkar. Hvert leitum við þegar okkur vantar styrki til íþróttastarfs barnanna okkar, styrki til góðgerðarmála eða vinninga á bingóið? Við erum hvert öðru háð og velvild í garð hvers annars skiptir okkur öll miklu máli.

Verslum í heimabyggð og allir græða. Ég óska þess að þið eigið öll ljúfa og góða aðventu.

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista.

Fyrri greinÞorgils Kári og Guðrún Inga efnilegust
Næsta greinLions gaf tvö hjartastuðtæki