Arna Ír og Eggert: Gamaldags vinnubrögð við gerð fjárhagsáætlunar

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2014 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn miðvikudaginn 30. október sl.

Vinna við gerð fjárhagsáætlunar er eitt af stærstu verkefnum hverrar sveitarstjórnar. Fjárhagsáætlanir eru skuldbindandi gagnvart tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórnun sveitarfélagsins. Meirihluti D-lista kaus því miður að boða ekki alla bæjarfulltrúa til vinnufunda vegna fjárhagsáætlunargerðar næsta árs. Það voru okkur bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar mikil vonbrigði að hafa ekki haft tækifæri til þess að taka þátt í vinnunni sem við lítum á sem skyldu okkar sem kjörna fulltrúa íbúa.

Vinnubrögð ekki í samræmi við gefin fyrirheit meirihluta
Við framlagningu fjárhagsáætlunar meirihluta D-lista lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram eftirfarandi bókun:

„Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2014 kusu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að vinna áætlunina einir og án nokkurrar aðkomu bæjarfulltrúa minnihlutans. Það á þó ekki við um vinnu við gerð fjárfestingaráætlunar, þar sem góð samvinna var í Framkvæmda- og veitustjórn við gerð fjárfestingaráætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2014. Svo virðist sem sú nefnd hafi verið eina fagnefnd sveitarfélagsins sem hafði eðlilega aðkomu að fjárhagsáætlunargerð síns málaflokks. Þetta eru gamaldags vinnubrögð og í engu samræmi við fögur fyrirheit meirihlutans um samstarf þvert á flokka í bæjarstjórn. Slík vinnubrögð eru á engan hátt til þess fallin að ná fram bestum mögulegum árangri í rekstri sveitarfélagsins. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar munu skoða fjárhagsáætlunina vel á milli fyrri og seinni umræðu og leggja fram breytingartillögur eftir því sem efni standa til.“

Á bæjarstjórnarfundinum urðu miklar umræður um þau vinnubrögð meirihluta D-lista að boða ekki alla lýðræðislega kjörna bæjarfulltrúa sveitarfélagsins til vinnufunda um gerð fjárhagsáætlunar eins og eðlilegt er nú á tímum. Heldur var það sérkennilegt og ekki traustvekjandi að heyra fulltrúa meirihlutans lýsa því yfir á fundinum að hafa aldrei komið jafn lítið nálægt fjárhagsáætlunargerðinni eins og að þessu sinni.

Aðkoma allra leiðir til betri ráðstöfunar skattpeninga!
Það er engum vafa undirorpið að með aðkomu allra bæjarfulltrúa að gerð fjárhagsáætlunar Sveitarfélagsins næst betri niðurstaða og betri ráðstöfun verður á skattpeningum íbúa. Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarin ár og kallað hefur verið eftir aukinni samvinnu og samstarfi þvert á flokka til heilla fyrir kjósendur. Þessi umræða hefur átt sér stað meðal fulltrúa allra flokka í íslenskum stjórnmálum, m.a. meðal fulltrúa meirihluta D-lista í Svf. Árborg. Það hefur lítið upp á sig að vera með yfirlýsingar um mikilvægi þess að eiga gott samstarf þvert á flokka ef engar eru efndirnar þegar á reynir.

Arna Ír Gunnarsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Svf. Árborg.