Arna Ír: Hættum notkun innkaupapoka úr plasti í Árborg!

Eitt af þeim málefnum sem Samfylkingin setti á oddinn fyrir sveitastjórnarkosningarnar sl. vor, var að unnið yrði markvisst að því að draga úr notkun innkaupapoka úr plasti í Árborg.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu því fram eftirfarandi tillögu á bæjarstjórnarfundi þann 20.ágúst sl.:

„Undirritaðar leggja til að Sveitarfélagið Árborg vinni markvisst að því að sporna við notkun innkaupapoka úr plasti í sveitarfélaginu. Lagt er til að farið verði í samstillt átak með íbúum og verslunareigendum, markvisst kynningarátak ásamt samráði og samstarfi við alla hagsmunaaðila. Hvatt verði til að verslunareigendur auki framboð á fjölnota pokum og umhverfisvænum ruslapokum sem leysast hratt upp í náttúrunni. Einnig er lagt til að Svf. Árborg taki beinan þátt í verkefninu með afhendingu fjölnota poka á öll heimili í sveitarfélaginu.“

Tillagan var samþykkt samhljóða og henni vísað til frekari útfærslu í framkvæmda- og veitustjórn.

Plastpokar ógna öllu lífríki
Plastpokar brotna ekki niður lífrænt, heldur molna á hundruðum ára í smærri einingar sem að endingu verða að svokölluðu plastryki. Plastrykið endar í sjónum og blandast loks við fæðu fugla og fiska og mengar þannig alla fæðukeðjuna og vistkerfið. Plastpokar sem velkjast á landi og sjó stofna dýralífi í hættu en plastrusl hefur einnig verulegan kostnað í för með sér. Áætlað er t.d. að kostnaður útgerða í Skotlandi vegna plasts, sem flækist í veiðarfæri, skrúfur, vatnsinntök o.fl., samsvari um 5% af tekjum útgerðarfyrirtækjanna.

Þegar hafa nokkur ríki náð umtalsverðum árangri í að draga úr plastpokanotkun. Í dag nota t.d. Danir og Finnar að meðaltali 4 poka á ári á meðan Íslendingar nota um 218 poka. Um 70 milljón burðarpokar úr plasti enda í ruslinu hér á landi, mögulega um 1.120 tonn af plasti en til þess að framleiða slíkt magn þarf um 2.240 tonn af olíu. Evrópuþingið hefur lagt til að bannað verði að gefa plastpoka í verslunum og dregið verði úr notkun um 50% fyrir árið 2017 og 80% fyrir árið 2019. Eftir árið 2019 verði aðeins pokar úr endurnýttum pappír eða niðurbrjótanlegum efnum í umferð.

Við getum öll lagt af mörkum
Nokkur sveitarfélög á Íslandi eru þegar komin í gang með átaksverkefni til þess að sporna við notkun innkaupapoka úr plasti eins og t.d. Hafnarfjörður, Garðabær og Stykkishólmsbær.

Við berum öll ábyrgð á að umgangast náttúruna af virðingu. Hvert einasta litla skref sem við stígum sem einstaklingar í átt að betri umgengni við náttúruna skiptir máli. Það er ánægjulegt að sjá að sífellt fleiri bæjarbúar nýta sér fjölnota poka við innkaup og sumar verslanir bjóða þegar upp á poka úr endurnýttum pappír. En við þurfum að gera enn betur!

Undirrituð hvetur bæjarbúa til að taka virkan þátt í þessu átaki sem er hugsað sem framlag bæjarins til þeirrar umhverfisvakningar sem er í gangi varðandi skaðsemi plasts.

Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg.

Fyrri greinRagnarsmótið hefst í kvöld
Næsta greinStjarnan sigraði aftur