Arna Ír: Bætum þjónustuna við nemendur af erlendum uppruna í Árborg!

Á fundi fræðslunefndar Svf. Árborgar í febrúar sl. lagði ég fram fyrirspurn um þjónustu við börn af erlendum uppruna í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins.

Í svörum við fyrirspurninni kemur m.a. fram að í skólum Svf. Árborgar er töluverður fjöldi nemenda af erlendum uppruna eða um 100 talsins. Miklu máli skiptir að vel sé tekið á móti þessum börnum og þeim veitt eins góð þjónusta og okkur frekast er unnt.

Vegna fyrirspurnarinnar, minnisblaðs sem fræðslustjóri lagði fram á fundinum og umræðu í kjölfarið, bókaði ég eftirfarandi: „Með hliðsjón af svörunum leggur undirrituð til að unnið verði að stefnumótun í málefnum nýrra íbúa sveitarfélagsins sem eru af erlendum uppruna. Undirrituð leggur einnig til að unnin verði sameiginleg móttökuáætlun fyrir nemendur af erlendum uppruna í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins þar sem m.a. verði sett metnaðarfull markmið um kennslu í móðurmáli nemendanna.“

Móðurmálskennsla
Það er hlutverk fræðsluyfirvalda í sveitarfélaginu að tryggja að öll börn fái jöfn tækifæri í námi. Börn af erlendum uppruna sem ekki fá móðurmálskennslu fá ekki sömu tækifæri til náms og íslenskir jafnaldrar þeirra. Móðurmálskennsla þarf að vera lögbundin í skólum til þess að öll börn af erlendum uppruna geti haldið í við íslensk börn í náminu. Það er afar mikilvægt að börnin kunni að skrifa og nota móðurmálið sitt á skapandi hátt. Sá orðaforði sem barn býr yfir á sínu móðurmáli hefur bein áhrif á námsárangur í framtíðinni og er mikilvægur grunnur til þess að læra nýtt tungumál. Tungumálið er auk þess hluti af rótum barnsins, menningararfur, sem er afar mikilvægur fyrir sjálfsmynd þess.

Grunnskólar í Svf. Árborg hafa reynt að sinna móðurmálskennslu nemenda af erlendum uppruna eins og kostur er síðustu ár, en betur má ef duga skal. Mikilvægt er að skólar sveitarfélagsins vinni saman, þannig að hægt verði að bjóða öllum nemendum upp á móðurmálskennslu, ekki bara þeim sem hópum sem eru fjölmennastir í skólunum. Einnig mætti bæta þjónustuna með því að fleiri sveitarfélög, t.d. í Árnessýslu, ynnu saman að því að bjóða upp á móðurmálskennslu.

Sameiginleg móttökuáætlun í sveitarfélaginu
Til þess að tryggja farsæla aðlögun nemenda af erlendum uppruna að samfélaginu, er afar mikilvægt að unnin verði sameiginleg móttökuáætlun fyrir alla leik- og grunnskóla sveitarfélagsins. Með sameiginlegri móttökuáætlun tryggjum við að unnið sé samkvæmt ákveðnum verkferlum þannig að faglega sé staðið að móttöku nemendanna í öllum skólunum. Þegar unnið er eftir skýrum verklagsreglum tekst okkur betur að tryggja að allir leggi metnað í að koma til móts við ólíkar þarfir hvers og eins. Við þurfum alltaf að leita allra leiða til þess að börn af erlendum uppruna séu virk í nærsamfélaginu, það gerir samfélagið svo miklu litríkara og skemmtilegra.

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista.