Arna Ír: Þess vegna gef ég kost á mér í bæjarstjórn

Það er ekki sama hvernig við forgangsröðum í nærsamfélaginu.

Hvernig við búum að börnum, ungmennum, eldri borgurum, fötluðu fólki og þeim sem þurfa á stuðningi og aðstoð að halda til þess að njóta sjálfsagðra lífsgæða. Ég býð mig ekki fram til setu í bæjarstjórn af því að ég hafi svo mikinn áhuga á félagsmálum. Ef það væri það eina sem ræki mig áfram þá myndi ég finna mér annan félagsskap.

Ég býð mig fram af því að mér þykir vænt um samferðafólk mitt í sveitarfélaginu og læt mig varða hagsmuni allra íbúa. Ég hef einlæga sannfæringu fyrir félagslegu réttlæti, mannréttindum og því að við finnum öllum verðug og eftirsóknarverð hlutverk í samfélaginu.

Jöfnum leikinn og lífskjörin
Stærsta verkefni stjórnmálanna er að jafna lífskjör og tækifæri fólks til farsæls lífs. Að jafna leikinn í samfélaginu þannig að enginn þurfi að búa við fátækt og afskiptaleysi samfélagsins þegar á bjátar. Allir lenda í erfiðleikum og áföllum í lífinu. Þá eigum við, samfélag velferðar og jöfnuðar að vera til staðar og hjálpa fólki aftur á fætur.

Bæjarfulltrúar verða að geta sett sig í spor allra íbúa, líka spor þeirra sem standa höllum fæti í sveitarfélaginu og þeirra sem þurfa á þjónustu að halda. Við þurfum að veita sveigjanlega einstaklingsbundna þjónustu sniðna að þörfum hvers og eins.

Við eigum að virða fjölbreytileika mannlífsins og berjast fyrir mannréttindum allra. Góð velferðarþjónusta og jöfnuður eru grunnurinn að réttlátu samfélagi sem skapar öryggi. Með því að tryggja öllum aðgang að góðri menntun og félagsþjónustu, óháð efnahag hafa allir tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu.

Meiri jöfnuður í samfélögum kemur ekki eingöngu þeim til góða sem hafa lægstu tekjurnar. Mikill meirihluti íbúa í löndum þar sem jöfnuður ríkir nýtur meiri velsældar en íbúar njóta almennt í löndum sem einkennast af ójöfnuði. Það skiptir máli hverjir stjórna og hvernig það er gert. Með yfirvegun, heiðarleika og jafnaðarstefnuna að vopni er ég sannfærð um að við getum við byggt betra sveitarfélag fyrir alla.

Skýrar áherslur og framtíðarsýn
S-listinn í Árborg hefur gefið út metnaðarfulla en raunhæfa stefnuskrá. Við leggjum mikla áherslu á búsetuúrræði fyrir fatlað fólk, að hjúkrunarrýmum verði fjölgað, að sveitarfélagið beiti afli sínu til að hér verði virkur leigumarkaður og endurgreiðslur verði hækkaðar til þeirra sem nota þjónustu dagforeldra í 40.000 kr og fjölga leikskólaplássum svo að börn komist fyrr inn á leikskóla. Þá höfum við sett fram metnaðarfullar og ferskar hugmyndir í atvinnumálum.

Þetta eru nokkur af áherslumáum okkar og hvet ykkur til að kynna ykkur fólkið og framboðið á xs.is/arborg en þar er málaskrá okkar að finna í heild sinni.

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi og situr í 2.sæti á S-lista í Árborg.