Arna Ír: Það eru sjálfsögð mannréttindi að eiga eigið heimili

Á fundi stjórnar Leigubústaða Árborgar þann 20. janúar sl. var ákveðið að selja tvær af félagslegum leiguíbúðum í eigu sveitarfélagsins.

Þar með eru íbúðirnar sem sveitarfélagið hefur selt á undanförnum 4 árum orðnar 11 talsins. Fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Leigubústaða mótmælti sölunni þar sem ekki stóð til að kaupa aðrar íbúðir í staðinn.

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að ákveðið er að selja einstaka félagslegar íbúðir. Framboð á félagslegu húsnæði verður alltaf að svara þeirri þörf sem er til staðar á biðlista eftir húsnæði á hverjum tíma. Þörfin fyrir ákveðnar stærðir og staðsetningar á íbúðum tekur eðlilega breytingum. Því er nauðsynlegt að ákveðin endurnýjun á húsnæðinu eigi sér stað.

Það er aftur á móti ekki góð pólitík að fækka félagslegum leiguíbúðum þegar staða á íbúðamarkaði er jafn erfið og hún hefur verið síðustu misseri. Nánast ómögulegt er fyrir tekjulágt fólk að fá húsnæði. Leiguhúsnæði er af skornum skammti og leiguverð svimandi hátt. Sú ákvörðun meirihluta D-lista, að selja 11 íbúðir á síðustu 4 árum án þess að nýjar hafi verið keyptar er fyrst og fremst gert til þess að skuldahlutfallið líti betur út. Það er ekki góð forgangsröðun að nota þennan viðkvæma málaflokk til þess að lækka skuldir.

Samfélagssátt um þjónustu við fatlað fólk
Ég geri það að tillögu minni að sveitarfélagið Árborg kaupi húsnæði í stað þess sem hefur verið selt á undanförnum 4 árum. Það húsnæði verði boðið fötluðu fólki sem er á biðlista eftir íbúð og sólarhringsþjónustu. Íbúðirnar gætu verið hluti af íbúðarkjarna þar sem íbúar fá þjónustu sem aðlöguð er að þörfum hvers og eins. Það er kjörið að sveitarfélög á Suðurlandi eigi með sér samstarf um slíkan íbúðarkjarna.

Svf. Árborg eins og önnur sveitarfélög á Íslandi hefur staðið í ýmsum framkvæmdum og verkefnum undanfarin misseri. Þessar framkvæmdir eru ekki allar skylduverkefni sveitarfélaga. Það er þjónusta við fatlað fólk hinsvegar. Ég er nokkuð viss um að það ríkir breið sátt um það í samfélaginu að tryggja að fatlað fólk hafi öruggt þak yfir höfuðið. Fatlað fólk hefur lágar tekjur og sáralitla möguleika til þess að auka þær. Eins og gefur að skilja á þessi hópur afar erfitt uppdráttar á almennum húsnæðismarkaði og þarf því öðrum fremur á aðstoð samfélagsins að halda.

Verum stórmannleg
Ég vil að við sýnum þessum íbúum okkar tilhlýðilega virðingu og fjárfestum sem allra fyrst í íbúðum þannig að fatlað fólk hafi öruggt þak yfir höfuðið. Ég geri mér grein fyrir því að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er erfið en þess má þó geta, að í greinargerð með ársreikningi ársins 2013 er sérstaklega tekið fram að Leigubústaðir Árborgar séu orðnir sjálfbærir rekstrarlega.

Sveitarfélög sem hafa reist mikil mannvirki og keypt stór lönd fá gjarnan mikla athygli. Þau þykja stórhuga og þar er kraftur í mönnum. Mér þykir stórmannlegra að veita fötluðu fólki mannsæmandi þjónustu og aðstoð við að lifa sjálfstæðu lífi á eigin heimili.

Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Svf. Árborg

Fyrri greinBílvellir opna á ný
Næsta greinStarfsemi rannsóknarstofu dróst saman um 70%