Ármann Einars: Talað á mannamáli

Ágætu sveitungar. Flestum ykkar finnst í dag eflaust sjálfsagt að við skulum hafa þessi stórglæsilegu íþróttamannvirki sem eru í sveitaflélaginu okkar.

Þetta voru miklar framkvæmdir og menn voru stórhuga. Því skal haldið til haga að B-lista menn voru alfarið á móti þessum framkvæmdum á sínum tíma. Það liggur í hlutarins eðli að það verður að draga saman í rekstri og framkvæmdum eftir svona átak, halda sjó og safna orku og fjármunum, en ekki of lengi. Það var einnig gert upp úr 1990 þegar íþróttahúsið var byggt og nánast ekkert framkvæmt kjörtímabilið á eftir.

Oddviti B-listans klappar sér á bak og talar um viðsnúning í rekstri sveitarfélagsins, gott og vel. Menn héldu sjó, sem er góður hlutur, en ef við vitnum í orð bæjarstjórans: „Tekjuaukning varð á milli ára umfram áætlanir, þó svo að rekstrarkostnaður hafi aukist, hafa rekstrartekjur aukist meira en rekstrargjöld“. Á mannamáli skýrist þetta af því að við fengum um 50 milljónum meira úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem hefði mögulega getað verið 50 milljónum krónum minna. Ef fjármálin hefðu verið í skötulíki þá kemur það ekki til baka á einu kjörtímabili, ef tekið er tillit til þess að hér varð hrun og allir urðu að aðlaga sinn rekstur breyttu umhverfi.

Þegar við horfum til baka á fjármögnun íþróttamannvirkjanna og ástæðu þess að gengið var til samninga við Fasteign efh, þá var þetta ákveðin tilraun, því dæmin höfðu áður sýnt framkvæmdir sveitarfélagsins fara fram úr kostnaði. Sem dæmi fór kostnaður við viðbyggingu Grunnskólans 280 prósent fram úr áætlun. Fasteign stóð í því að gera samninga við verktaka og halda kostnaði innan eðlilegra marka, sem sveitafélögum hefur reynst erfitt í stærri verkefnum. Samið var um leigu á mannvirkjum og var sú leiga gengistryggð. Í samningnum var tiltekið að hægt væri að kaupa íþróttamannvirkin til baka eftir 5 ár en til þess þurfti ekki að koma þar sem Fasteign fór í þrot. Aftur klappar oddviti B-listans sér á bak fyrir að hafa náð þessum eignum til baka. Hið rétta er að mönnum var réttur samningur, fengu hann í rauninni í fangið og raun enginn annar kostur í stöðunni en að taka honum.

Ég upplifi persónulega ákveðið tómlæti gagnvart atvinnulífinu af hálfu sveitarfélagsins. Við þurfum að spýta í lófana þar. Við erum hvergi inni í umræðunni. Nýlegasta dæmið er þegar Ölfus kom ekki einu sinni fram í sjónvarpsþætti um sveitastjórnarmál á Suðurlandi, við virtumst hreinlega hafa gleymst. Við erum af sama skapi dottin af lista hjá Íslandsstofu sem áhugaverður kostur fyrir erlenda og innlenda fjárfesta. Þetta er mjög alvarleg þróun. Í þessum málum gengur ekki að halda bara sjó heldur þarf að reima á sig skóna og halda áfram veginn og minna á sig. Ef þessu verður ekki snúið við er raunveruleg hætta á að við siglum inn í hnignunartímabil með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Því hvað sem hver segir þá hefur því miður orðið fólksfækkun hér.

Þessu þarf að snúa við, þetta er bara vinna og aftur vinna og erum við Sjálfstæðismenn tilbúnir í þá vinnu af heilum hug, að fylgja hlutum eftir og klára þau mál sem upp koma.

Ármann Einarsson, oddviti sjálfstæðismanna í Ölfusi.

Fyrri greinSteypuvinna myrkranna á milli
Næsta greinEngin uppskera úr jöfnum leik